- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Kæru íbúar Rangárþings eystra.
Nú er að hefjast önnur vikan okkar með talsvert breyttu sniði heldur en við eigum að venjast.
Fyrir það fyrsta langar mig f.h. Rangárþings eystra að þakka ykkur fólkinu í sveitarfélaginu fyrir hversu vel þið hafið tekið þeim nauðsynlegu breytingum og skerðingu á þjónustu sem orðið hefur. Það sést glöggt hvers við erum megnug þegar við leggjumst á eitt.
Í upphafi vikunnar gerum við ráð fyrir sama fyrirkomulagi varðandi skóla og leikskóla, nema að opnunartími leikskóla breytist í 08-16, sökum þess að starfsmönnum hefur verið skipt upp til að tryggja órofin rekstur eins lengi og okkur er unnt. Allir foreldrar barna í grunn- og leikskóla hafa verið upplýstir með tölvupósti frá skólastjórnendum. Viðbragðsteymi sveitarfélagsins sem skipað er forstöðumönnum stofnana, sveitarstjóra og oddvita fundar mjög þétt þessa dagana (að sjálfsögðu í fjarfundi). Við fylgjum fyrirmælum yfirvalda í hvívetna og því geta hlutirnir breyst með skömmum fyrirvara.
Í samræmi við hertar reglur samkomubanns sem gefnar voru út í dag (sem má lesa hér) hefur verið tekin ákvörðun um að loka íþróttamiðstöðinni á Hvolsvelli frá og með kl. 13:00, 23. mars 2020. Við munum að sjálfsögðu opna aftur um leið og það verður talið öruggt. Í millitíðinni verður tíminn nýttur til viðhaldsframkvæmda og betrumbóta. Við hvetjum að sjálfsögðu íbúa til daglegrar hreyfingar með ýmsum hætti á meðan lokun varir.
Enn sem komið er, hafa greinst fá smit hér í okkar sveitarfélagi, en þó nokkur fjöldi einstaklinga er í sóttkví. Með samvinnu okkar, samstilltum aðgerðum og síðast en ekki síst að við förum eftir fyrirmælum almannavarna, sóttvarna – og landlæknis, sigrumst við á veirunni áður en langt um líður.
Að lokum vil ég þakka öllum þeim frábæru starfsmönnum sem starfa hjá Rangárþingi eystra og af æðruleysi sinna sínum störfum af mikilli fagmennsku til að halda uppi þjónustu sveitarfélagsins dag frá degi. Já þið eigið svo sannarlega skilið hrós. Án ykkar væri þetta ekki hægt.
Kærar kveðjur til ykkar allra.
Anton Kári Halldórsson
Sveitarstjóri.