- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Skólaárið hófst í leikskólanum 15. ágúst og opnuðum við klukkan 10:00 þegar búið var að ganga frá á deildum eftir viðhald sumarsins. Sett voru upp fatahólf, bílastæði löguð, ruslatunnur færðar annað og milliveggir settir upp á Tónalandi. Litli Dímon var bónaður og svo má lengi telja.
Við verðum í vetur á þremur stöðum með fimm deildar eins og á síðasta skólaári.
Í vetur verða 100 börn í vistun í leikskólanum og af þeim eru 33 börn með annað móðurmál en íslensku. Við höfum því bætt við starfsfólki á deildar til að sinna málörvun og annarri vinnu sem þarf til að upplifun barna í daglegu starfi leikskólans verði jákvæð og að börnin geti farið frá okkur uppá næsta skólastig sjálfstæð og með góða reynslu í reynslubankanum.
Á síðasta skólaári hófum við innleiðingu á handbókinni snemmtæk íhlutun í máli og læsi sem unnið var sem þróunarverkefni frá árinu 2019-2021. Í þeirri handbók er ýmsar hagnýtar upplýsingar eins og verkferlar sem við vinnum eftir í daglegu starfi leikskólans. Hvaða áherslur eru í málörvun í leikskólastarfinu innan leikskólans. Handbókin okkar er í stöðugri þróun og starfsfólk vakandi fyrir nýjum leiðum til að bæta enn frekar í daglega málörvun barna.
Í vetur starfa hjá okkur :
Í leikskólanum hefur hlutfall fagmenntaðra hækkað og mun vonandi hækka enn frekar á næstu árum og nú eru þrír starfsmenn í námi í leikskólakennarafræðum, einn starfsmaður í námi í þroskaþjálfafræðum og einn í sálfræðinámi. Í lögum um leikskóla er kveðið á um að 2/3 eigi að vera með kennaramenntun og erum við á réttri leið til að uppfylla þau lög.
Með meiri fagmenntun innan leikskólans er meiri kjarasamningsbundinn undirbúningstími og í ár þurfum við að manna þrjú stöðugildi vegna undirbúnings starfsmanna á viku. Einnig hafa leiðbeinendur fengið undirbúning því þeir þurfa einnig að undirbúa starf innan leikskólans. Það er mikill metnaður starfsmanna í leikskólanum við að efla og þróa starfið enn frekar.
Í vetur stefnum við á að klára uppfærslu á skólanámskrá leikskólans og munum við boða til kaffihúsafundar með foreldrum fljótlega til að fá þeirra sýn og hugmyndir um leikskólastarfið hér. Vonandi sjá einhverjir sér færi á að mæta því ykkar sýn og hugmyndir skipta miklu máli fyrir gott samstarf milli heimilis og skóla.
Þetta skólaár er síðasta skólaárið áður en við flytjum í nýja byggingu sem verður bylting í starfsaðstæðum barna og kennara og hlakkar okkur svo sannarlega til. Það mun hjálpa okkur enn frekar að efla og þróa starfið okkar.
Við byrjuðum í ágúst að þróa markvissa útikennslu. Í vetur mun því starfa hjá okkur verkefnisstjóri útikennslu sem mun í byrjun fara með hópa í tveimur elstu árgöngunum hjá okkur markvisst í rannsóknarleiðangra um nærumhverfið okkar. Rannsóknir styðja við upplifun okkar um að börnin læri best í náttúrulegu umhverfi og það höfum við sannarlega fundið fyrir eftir að við þurftum að fara í félagsmiðstöðina og Hvolinn. Þar eru ekki leiktæki og börnin hafa því þurft að finna sér eitthvað að gera á lóðunum og í þeirra nærumhverfi. Börnin eru ótrúlega lausnamiðuð þegar þau eru spurð hvað þau langi að gera í útiveru. Starfsfólkið hefur líka hugsað út fyrir kassann og fært út t.d. málningu og annað efni út og börnin alsæl að fá að mála úti frekar en við borð. Félagsfærni barna hefur aukist þar sem þau hafa þurft að hafa mikil samskipti á útisvæði og höfum við séð leik barna þróast hratt og samskipti barna aukist og þróast í leiknum.
Nú sjáum við fram á að geta opnað leikskólann enn frekar og boðið foreldrum oftar á viðburði í starfinu okkar og erum við mjög spennt.
Við lítum björtum augum á veturinn um leið og okkur hlakkar til að fara í nýja byggingu þar sem við verðum öll á sama stað.
Sólbjört Sigríður Gestsdóttir
Leikskólastjóri