- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Föstudaginn 18. ágúst var fyrsta skóflustungan tekinn að nýjum leiguíbúðum sem Bjarg íbúðafélag byggir.
Bjarg íbúðafélag hefur hafið byggingu á fjórum íbúðum í raðhúsi við Hallgerðartún 69-75 á Hvolsvelli.
Íbúðirnar verða 4ra herbergja í raðhúsi á einni hæð og eru þær 92,2 - 93,6 m². Um er að ræða sérbýli með litlum garði og allar íbúðir með tveimur bílastæðum.
Áætlað er að íbúðirnar verði tilbúnar í apríl 2024. Verktaki verksins er Eðalbyggingar og SG hús á Selfossi.
Bjarg íbúðafélag er húsnæðissjálfseignarstofnun stofnuð af ASÍ og BSRB. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða svokölluð leiguheimili að norrænni fyrirmynd, ,,Almene boliger". Leiðarljós félagsins er að veita leigutökum öruggt húsnæði til langs tíma.
Það var í byrjun árs 2022 sem Bjarg íbúðafélag kom að máli við Rangárþing eystra og kynnti hugmyndir sínar um uppbyggingu leiguhúsnæðis í Rangárþingi eystra. Vel var tekið í þær hugmyndir og á 304. fundi sveitarstjórnar var ákveðið að Rangárþing eystra kæmi að verkefninu með stofnframlagi í formi láns ásamt því að úthluta lóð fyrir verkefnið.
Opnað verður fyrir umsóknir um leiguíbúðirnar í september 2023.