- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Nýjasta gatan á Hvolsvelli, Hallgerðartún, er nú að byggjast upp og má nú sjá þar grunna og byggingar á ýmsum stigum. Fyrstu íbúarnir eru meira að segja fluttir inn en þau Bianca Gruener og Jón Bertel Jónsson ásamt Marsibil Silju, dóttur sinni, búa nú í Hallgerðartúni 19. Þau Bianca og Jón Bertel hafa búið á Hvolsvelli í 15 ár en Marsibil dóttir þeirra er 7 ára og nemi í 1. bekk í Hvolsskóla. Spurð út í hvað þeim þætti best við að búa í sveitarfélagin þá svöruðu þau að nálægðin við náttúruna og hversu lítið en gott samfélagið væri mjög jákvætt. Þau hjón eru bjartsýn fyrir framtíðinni í sveitarfélaginu, sjá fyrir sér að með fjölgun íbúa skapist fleiri störf og þá verði líka til fjölbreyttari afþreying fyrir börn og unglinga á svæðinu. Fjölskyldan er mjög ánægð að hafa byggt hús á þessum flotta stað og hlakka til að sjá götuna byggjast upp í kringum þau.
Í tilefni af þessum merku tímamótum færði Lilja Einarsdóttir, sveitarstjóri, fjölskyldunni tré frá Garðaþjónustu Gylfa. Því miður voru mæðgurnar Bianca og Marsibil ekki heima en Jón Bertel tók við trjánum og skjali frá sveitarfélaginu.
- Þessi frétt birtist í maí útgáfu Fréttabréfs Rangárþings eystra -