- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Undirritaður hefur verið samningur milli Fjölbrautaskóla Suðurlands (FSu) og Valdimars Árnasonar eiganda Selfoss Hostel um að rekin verði heimavist fyrir skólann að Austurvegi 28 Selfossi.
Samningurinn er afrakstur vinnu starfshóps sem skipaður var af stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) í janúar 2019. Í hópnum sitja Einar Freyr Elínarson oddviti Mýrdalshrepps og formaður hópsins, Anton Kári Halldórsson oddviti Rangárþings eystra, Sandra Brá Jóhannsdóttir sveitarstjóri Skaftárhrepps og Nói Mar Jónsson tilnefndur af Ungmennaráði Suðurlands. Á meðfylgjandi mynd vantar Söndru Brá.
Starfshópurinn lagði ályktun fyrir stjórnir allra sveitarfélaga sem hlut eiga í skólanum. Þar var skorað á skólanefnd og stjórnendur skólans til að vinna að uppbyggingu heimavistar og á mennta- og menningarmálaráðherra að beita sér í málinu. Ályktunin var samþykkt samhljóða í öllum sveitarstjórnum og í kjölfarið hófst vinna í ráðuneytinu. Henni lauk í maí sl. með ákvörðun ráðherra um að kannaður yrði möguleikinn á því að leigja húsnæði á Selfossi og starfrækja þar heimavist við FSu og var það gert með skólameistara og skólanefnd skólans. Nú hefur það verið gert og fram að áramótum verða í boði 10 herbergi á vistinni en árið 2021 verða þau 15. Heimavistin er hugsuð fyrir nemendur sem ekki hafa tækifæri til að nýta almenningssamgöngur til að mæta í skólann.
Niðurstaðan er mikið ánægjuefni fyrir Sunnlendinga enda er um að ræða lykilþátt þess að tryggja jafnrétti til náms fyrir ungmenni í landshlutanum.
Á myndinni eru frá vinstri: Einar Freyr Elínarson, formaður starfshóps SASS, Valdimar Árnasonar, framkvæmdastjóri Selfoss Hostel, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari FSu.
Formaður starfshópsins Einar Freyr Elínarson, oddviti Mýrdalshrepps, sími 823 1320 og Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari FSu, sími 699 2125 veita nánari upplýsingar.