- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Það er ekki annað hægt að segja en að sumarið byrji vel í Rangárþingi eystra og höfum við getið notið tónleika, útivistar og haft það gaman saman nú þegar sóttvarnarhömlur eru smátt og smátt að leggjast af. Sveitarfélagið leggur þó áherslu á að við pössum áfram einstaklingsbundnar sóttvarnir svo að við getum haldið áfram á þessari braut.
En þá að komandi helgi sem verður fjölbreytt og skemmtileg í sveitarfélaginu.
Fornbílaklúbbur Íslands heldur landsmót sitt á Hvolsvelli um helgina og því eigum við von á að talsverður fjöldi fólks og fallegra bíla heimsæki okkur. Bílunum verður stillt upp á grasflötinni milli N1 og Apóteksins og þar verður hægt að skoða bílana og spjalla við eigendur. Vonir standa til að mótið verði að árlegum viðburði á Hvolsvelli sem sannarlega setur svip á dagskrá sumarsins.
Í kvöld, föstudag, þá er hægt að sækja tvenna tónleika í sveitarfélaginu. Félagarnir JóiPé og Króli mæta galvarskir á Midgard Base Camp með hljómsveit. Lög þeirra hafa slegið hvert metið á eftir öðru í hlustunum, þeir hlotið bæði Hlustenda- og Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir verk sín og svo mætti lengi telja. Drengirnir eru spenntir að mæta og spila öll sín bestu lög þar sem stuð og stemning verður í fyrirrúmi. Nánari upplýsingar hér: JóiPé x Króli ÚTUMALT. Í Gamla fjósinu ætla þau Kjartan Arnald og Sveinbjörg Júlía að spila fyrir gesti. Kjartan er vinsæll trúbador og hefur spilað fyrir fjölda fólks sl. ár en Sveinbjörg Júlía er ung söngkona sem er að stíga sín allra fyrstu skref í tónlistinni. Það verður því hægt að lofa notalegri stemningu með stuð ívafi í Gamla fjósinu í kvöld.
Á laugardaginn er veðurspáin ansi góð og því tilvalið að heimsækja Bolholtsskóg og taka þátt í ratleik í skóginum, ganga með leiðsögn og njóta svo kaffisopa í boði Skógræktar Rangæinga. Líf í lundi er milli kl. 14 - 16.
Kvöldið er svo litað ljúfri og góðri stemningu, sænskt Midsommar Afton á Midgard Base Camp þar sem boðið verður upp á sænska síld og snaps og Gleðisveitin Plús spilar sænsku lögin milli kl. 21:00-22:00 og hljómsveitin Remedía spilar kántrý og þjóðlagatónlist fyrir gesti Eldstó Art Café frá kl. 19:30.
Sunnudagurinn býður upp tónleika að Kvoslæk og tónleika í Þorsteinslundi. Hjónin Björn Bjarnason og Rut Ingólfsdóttir standa fyrir dagskránni Gleðistundir að Kvoslæk og er fyrsti viðburðurinn nú á sunnudaginn. Þá mun Salonhljómsveitin L‘Amour fou (Brjáluð ást) leika fjölbreytta efnisskrá þekkra laga og hefjast tónleikarnir kl. 15:00. Sæbjörg Eva Hlynsdóttir hefur verið dugleg að koma fram síðustu ár og í sumar ætlar hún að halda tvenna tónleika ásamt hljómsveit sem hún kallar Náttúrutónar. Þeir fyrri verða á sunnudaginn í Þorsteinslundi og með henni eru tveir ungir gestasöngvarar úr héraði, þau Birta Rós Hlíðdal og Sigurður Anton Pétursson. Markmiðið er að skapa skemmtilega lautarferðarstemningu og gestir eru hvattir til að taka með sér teppi eða stóla og jafnvel gott nesti.