- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Ingibjörg Erlingsdóttir, tónlistarkona hlaut Menningarverðlaun Suðurlands árið 2024 en viðurkenningin var veitt á ársþingi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) í Hveragerði 31. október sl. Í rökstuðningi dómnefndar segir að Ingibjörg hafi unnið glæsilegt starf í þágu tónlistar, tónlistarkennslu og kórstjórnun á Suðurlandi.
Verðlaunin eru samfélags- og hvatningarverðlaun SASS á sviði menningar á Suðurlandi.
Alls bárust 11 tilnefningar um 10 verkefni og/eða einstaklinga af öllu Suðurlandi. Mikil breidd var í tilnefningum og gæðum þeirra. Tilnefningarnar eru aðeins toppurinn af ísjakanum í því mikla menningarstarfi sem á sér stað í fjórðungnum.
Í starfi sínu leggur Ingibjörg mikla áherslu á að hvetja unga sem aldna til söng- og hljóðfæraiðkunar. Ingibjörg stofnaði Tónsmiðju Suðurlands árið 2007 ásamt Stefáni Þorleifssyni sem starfræktur er á Selfossi, skólinn er rekinn af mikilli hugsjón og hugmyndafræði skólans er að sækja í sjóð nemenda og sinna þeirri tónlistarþrá sem býr í þeim.
Ingibjörg hefur stýrt barnakór Hvolsskóla á Hvolsvelli með farsælum hætti í hartnær 30 ár og er ásókn nemenda í kórinn mikil en á síðasta starfsári voru 70 nemendur í kórnum frá 5. – 10. bekk en í skólanum voru 225 nemendur. Ingibjörg sýnir mikinn metnað í lagavali, útsetur lögin sjálf og semur einnig lög. Hvetur Ingibjörg nemendur til að koma út úr skelinni og syngja einsöng sem setur skemmtilegan brag á tónleika barnakórsins. Þá hefur Ingibjörg einnig stýrt kvennakórnum Ljósbrá síðastliðinn fimm ár og stýrir kórnum af miklum metnaði og elju.
Ingibjörg hefur leikið og sungið með ýmsum hljómsveitum, tónlistarhópum og kórum í gegnum tíðina, einnig hefur hún tekið að sér útsetningar og tónlistarstjórn fyrir ýmsa aðila.
Við óskum Ingibjörgu innilega til hamingju með mjög svo verðskulduð verðlaun!
https://www.sass.is/ingibjorg-erlingsdottir-tonlistarkona-hlaut-menningarverdlaun-sudurlands-2024/