- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Innleiðing að Barnvænu sveitarfélagi gengur vel og um þessar mundir er stýrihópurinn að leggja lokahönd á stöðumatið. Stöðumatið er umfangsmikið skref í ferlinu og tekur um það bil eitt ár í vinnslu. Með stöðumati er verið meta stöðu réttinda barna innan sveitarfélagsins eins og hún er í upphafi verkefnisins. Í ferlinu á sér stað umfangsmikil gagnaöflun. Stýrihópurinn byrjaði á því að fylla út gátlista er varða réttindi barna í sveitarfélaginu. Að því loknu var send út spurningakönnun til nemenda í 5. – 10. bekk, ungmenna sem fædd eru árin 2004 og 2005 og til allra starfsmanna sveitarfélagsins. Spurningakannanirnar snéru að þekkingu fólks á barnasáttmálanum og um réttindi barna. Í lok október hélt ungmennaráð sveitarfélagsins í samstarfi við stýrihóp Barnvæns samfélags barna- og ungmennaþing. Við fengum leyfi til að halda barnaþing fyrir nemendur í 1. – 6. bekk á skólatíma en ákveðið var að halda ungmennaþing á laugardegi fyrir ungmenni fædd á árunum 2004 – 2008.
Ánægja var á meðal barna og ungmenna með þingin og kom strax upp ósk um að halda slíkt árlega. Það var virkilega ánægjulegt að taka þátt í þessari vinnu og komu fram margar góðar hugmyndir sem sumum hefur nú þegar verið hrint í framkvæmd. Eins eru niðurstöðurnar dýrmætar í þeirri vinnu sem framundan er.
Næstu skrefin í innleiðingunni eru fræðsla um réttindi barna til barna og ungmenna í sveitarfélaginu og til starfsmanna sveitarfélagsins, þau skref verða stigin í haust.
Þar sem stöðumati er að ljúka verður einnig hægt að hefjast handa við vinnslu aðgerðaráætlunar.
Gyða Björgvinsdóttir
Verkefnastjóri