Í byrjun árs 2024 fól byggðarráð Rangárþings eystra þá nýstofnuðu fjölmenningarráði að ráðstafa styrk sem sveitarfélaginu barst frá SASS í tengslum við verkefnið sem sveitarfélagið var hluti af og ber nafnið ,,Aðgerðaráætlum um sjálfbæra lýðfræðilega þróun miðsvæðisins“. Verkefnið miðað að því að styðja sveitarfélögin Rangárþing eystra, Mýrdalshrepp, Skaftárhrepp og Hornafjörð við gerð móttökuáætlunar erlendra íbúa á sínum svæðum, ásamt því að vinna að sértækum verkefnum innan sveitarfélaganna til að auka inngildingu innflytjenda á svæðinu og minnka íbúaveltu.

 

Fjölmenningarráð var strax með ákveðna hugmynd um í hvað styrkurinn ætti að fara. Ákveðið var að bjóða upp á frítt íslenskunámskeið fyrir alla íbúa í Rangárþingi eystra af erlendum uppruna sem og að setja á fót tungumálakaffi í bókasafninu. Boðið var upp á tvö námskeið, annars vegar fyrir byrjendur og hins vegar fyrir lengra komna. Markmið námskeiðsins og tungumálakaffisins var að tala íslensku og var áherslan öll á að ná góðum tökum á talmáli. Viðtökurnar fóru framar björtustu vonum. Svo mikil ásókn var í námskeiðin að færri komust að en vildu. Kennslan fór fram á 10 vikna tímabili, einu sinni í viku. Það var samhljóða álit allra nemenda að námskeiðið hafi skilað þeim miklu, færni þeirra í íslensku aukist sem og öryggi til að tala tungumálið.

 

Tungumálakaffið var einnig haldið einu sinni í viku, þar gafst gestum tækifæri á að æfa íslenskuna sem og að læra um hefðir og venjur á Íslandi. Þessar stundir voru afskaplega skemmtilegar, ekki einungis fengu erlendir gestir að æfa sig í íslensku en fengu einnig íslenskir gestir góða innsýn inn í menningarheim margra annarra landa þ.a.m. Indlands, Póllands og Rúmeníu svo einhver lönd séu nefnd.

 

Fjölmenningarráð er afskaplega þakklát fyrir að hafa getað boðið upp á námskeiðin og tungumálakaffið þar sem greinilegt er að þörf hefur verið á viðburðum sem þessum í Rangárþingi eystra. Vonandi er þetta bara byrjunin og hægt verði að bjóða upp á álíka viðburði áfram.