- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Miðvikudaginn 23. nóvember var kveikt á ljósunum á Miðbæjarjólatrénu en jólatréð er staðsett á túninu milli Landsbankans og Hvolsins. Fjöldi fólks lét ekki dálítinn kulda og vind hafa áhrif á sig og mætti til að taka þátt.
Barnakór Hvolsskóla hóf dagskrána með fallegum jólasöng og það er nokkuð víst að jólagleðin hafi læðst inn í hjörtu gesta við að hlusta á lögin þeirra. Það er Ingibjörg Erlingsdóttir sem að stýrir kórnum.
Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri, flutti svo stutt ávarp þar sem hann m.a. þakkaði starfsmönnum Áhaldahúsins fyrir að setja þéttbýlið í jólabúning og má svo sannarlega taka undir þakkir til þeirra. Hann þakkaði einnig Landsbankanum sem hefur stutt þennan viðburð í meira en áratug en bankinn býður öllum börnum sem mæta upp á góðgæti í poka. Miðbæjarjólatréð að þessu sinni er úr garðinum hjá Guðmundu Þorsteinsdóttur og Hauki G. Kristjánssyni, við Norðurgarð 18 og flutti sveitarstjóri þeim kærar þakkir fyrir. Anton Kári talaði líka um hversu mikilvægt það er að við pössum upp á hvert annað og séum góð hvert við annað því við þurfum ekki að líta langt yfir skammt til að sjá mikla eymd í stríðshrjáðu Evrópulandi. Svo var komið að aðalmálinu, að kveikja á ljósunum, og eftir kraftmikla niðurtalningu þá gekk allt eins og í sögu og ljósin á trénu lýsa nú upp túnið.
Sveitalistamaður Rangárþings eystra, Hlynur Snær Theodórsson, kom og spilaði nokkra klassíska jólasmelli meðan gengið var í kringum jólatréð. Meðan flutningur Hlyns stóð sem hæst þá mættu rauðklæddir sveinkar á svæðið með stæl en þeir fengu far hjá Björgunarsveitinni Dagrenningu í nýjum snjóbíl. Þeir voru þó ekki einir á ferð því Grýla sjálf var með í för. Grýla átti skemmtilegt spjall við Hlyn Snæ sem að fékk viðstadda til að veltast um af hlátri þar sem meðal annars kom fram að Leppalúði væri orðinn vegan og að hún væri orðin alveg fjörgömul.
Bæði Sveitabúðin Una og ísbúðin Valdís tóku þátt í að gera viðburðinn hátíðlegan, hægt var að fá kakó og lagköku í Unu og fyrsti jólaísinn var kominn í borðið hjá Valdísi.
Rangárþing eystra færir öllum sem tóku þátt í þessari jólagleði kærar þakkir.