- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Það var í júní árið 1934 sem nokkrar konur komu saman að Krossi sem þá var samkomustaður sveitarinnar og ræddu stofnun kvenfélags. Félagið var síðan formlega stofnað 15. október árið 1934 og hlaut nafnið Freyja. Aðalhvatamaður að stofnun þess var Guðrún Jónasdóttir í Hallgeirseyjarhjáleigu og varð hún fyrsti formaður félagsins. Með henni í fyrstu stjórn voru systurnar Vilborg Sæmundsdóttir á Lágafelli, gjaldkeri, og Margrét Sæmundsdóttir í Miðey, ritari.
Tilgangur félagsins er að efla samúð og samvinnu meðal kvenna, gleðja og styrkja þá sem minna mega sín, Kvenfélagskonur geta verið stoltar af framlögum sínum til samfélagsins, þær njóta þess að vinna saman að góðum verkum og gleðjast yfir árangrinum. Kvenfélög eru mikilvægur hlekkur í hverju samfélagi.
Á afmælisárinu eru félagar í Kvenfélaginu Freyju samtals tuttugu og átta og hefur sá fjöldi verið nokkuð stöðugur undanfarin ár. Er mjög ánægjulegt að ungu konurnar í sveitinni hafa verið duglegar að ganga til liðs við félagið og er starfinu mikill styrkur að því.
Í tilefni afmælisins var sérstök afmælisnefnd skipuð sem sá um undirbúning og framkvæmd afmælisins í samvinnu við stjórn félagsins. Héldu félagskonur í skemmtiferð dagana 21.-22. september sl. Dásamleg ferð sem vakti mikla kátinu og var einkar vel heppnuð en í þessari ferð naut félagið góðs af þjónustu og rútu frá fyrirtækinu Southcoast Adventure sem starfar í heimabyggð.
Tuttugu félagskonur sáu sér fært að mæta og var ferðinni heitið að Geysi í Haukadal. Með þó nokkrum stoppum til og frá. Fyrsta stopp voru Hellarnir við Hellu þar sem Stefán Smári tók á móti okkur og veitti frábæra leiðsögn. Því næst var komið við í Hespuhúsinu hjá Guðrúnu Bjarnadóttir, þar sem hópurinn fékk fróðleik um litun á bandi en á vinnustofunni er hægt að versla sér jurtalitað band í öllum regnbogans litum og útfærslum en einnig að setjast niður og glugga í bækur eða grípa í prjóna. Að því loknu var haldið á Friðheima þar sem við fengum kynningu á fyrirtækinu og boðið var upp á matarveislu í nýju fínu Vínstofunni. Þar minntust við einnig góðs félaga, Sigríðar Kristjánsdóttur, sem nýlega var fallin frá.
Þegar allar voru saddar og sælar var haldið í Laugarvatnshella við Laugarvatn og fengin innsýn í líf íslenskra fjölskyldna sem þar bjuggu fyrir tæpum 100 árum. Eftir góðan og fróðlegan dag var svo endað á Hótel Geysi þar sem félagar gistu eina nótt eftir dásamlegan hátíðarkvöldverð og samveru.
Eftir morgunmat daginn eftir fóru nokkrar galvaskar konur í göngutúr um Geysissvæðið og voru rifjaðir upp gamlir og góðir tímar. Á heimleiðinni fór hópurinn að Gullfossi eins og góðum túristum sæmir og hélt því næst að Flúðum þar sem Ragnheiður Georgsdóttir hjá Flúðasveppum tók á móti hópnum með skemmtilegri leiðsögn og dýrindis súpu, brauði og kökum. Eftir það var haldið áfram heim á leið með stuttu stoppi í sjálfsafgreiðslu Hreppamjólkur við Gunnbjarnaholt þar sem mjólkurflaska bættist við farangur hópsins. Virkilega vel heppnuð ferð og áttu félagar ánægjulega stund í fögru umhverfi og góðu haustveðri.
Sunnudaginn 13. október n.k. stendur svo kvenfélagið fyrir morgunverði eða dögurði í tilefni afmælisins í félagsheimilinu Gunnarshólma frá kl. 10 – 13. Eru núverandi og fyrrverandi sveitungar hjartanlega velkomnir til að fagna með okkur og eiga notalega stund saman.