- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Næstkomandi helgi, 4. - 6. mars, verður mikið um að vera á Hvolsvelli því Landsmót Samfés fer þar fram.
Landsmót Samfés var haldið í fyrsta sinn á Blönduósi 1990 þar sem 25 aðildarfélagar Samfés komu saman. Unglingarnir, allir í 8. bekk, ræddu um málefni ungs fólks og starfsmenn ræddu samstarf félagsmiðstöðva. Mótið var síðast haldið á Hvolsvelli árið 2013.
Síðustu árin hefur dagskrá Landsmóts Samfés tekið miklum breytingum. Núna koma fulltrúar frá nánast öllum félagsmiðstöðvum á landinu á Landsmót og því verða um 400 ungmenni ásamt 50 starfsmönnum hjá okkur um helgina. Unnið verður í fjölbreyttum smiðjum, víðsvegar um sveitarfélagið, þar sem markmiðið er að ungmennin taki það sem þau læra með sér heim og miðli reynslu sinni og þekkingu í sinni félagsmiðstöð. Auk þess er lögð rík áhersla á mikilvægi þess að hitta jafnaldra sína, kynnast nýju fólki og að allir skemmti sér sem best.
Lokadagur mótsins er helgaður Landsþingi ungs fólks. Það er Ungmennaráð Samfés sem hefur veg og vanda að því að skipuleggja þennan viðburð. Á Landsþinginu fær ungt fólk tækifæri til að tjá sig um hin ýmsu málefni þeim hugleikinn.
Landsmótið er stórt og veigamikið verkefni og umsjón með því hafa starfsmenn félagsmiðstöðvarinnar Tvistsins ásamt íþrótta- og æskulýðsfulltrúa sem og fjölda fólks sem aðstoða á einn eða annan hátt.