- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Leikskólinn Aldan var formlega vígður í dag að viðstöddu fjölmenni, á öllum aldri. Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri Rangárþings eystra flutti ávarp og sagði hann m.a. að sveitarfélagið þyrfti kannski að halda viðburði oftar þvi veðrið hefur leikið við íbúa meðan á viðburðum hefur staðið i vikunni. En fyrst og fremst þakkaði Anton Kári, starfsfólki Öldunnar, nemendum og foreldrum fyrir þolinmæði sína og þrautseigju meðan á húsnæðisvanda leikskólans stóð. Undir það tók Sólbjört Sigríður Gestsdóttir, skólastjóri Öldunnar, í sínu ávarpi. Sólbjört sagði ennfremur að héldi að þetta væri einn allra flottasti leikskóli landsins og jafnvel sá stærsti, allavega miðað við höfðatölu. Sólbjört nefndi einnig þær Jónu Sigþórsdóttur og Önnu Þorsteinsdóttur á nafn en Jóna hannaði hið nýja merki (logo) Öldunnar og Anna á heiður af nafninu Aldan. Sigríður Karólína Viðarsdóttir flutti tölu fyrir hönd Fjölskyldunefndar.
Sveitarstjóri færði Sólbjörtu 10 pottaplöntur, eina fyrir hverja deild, og á plöntunum héldu nemendur úr Hvolsskóla, einn úr hverjum bekk skólans. Kristín Jóhannsdóttir, formaður kvenfélagsins Hallgerðar, tók til máls og færði leikskólanum útieldstæði. Margrét Guðjónsdóttir, formaður kvenfélagsins Einingar, sagði nokkur orð og færði leikskólanum hillur og hljóðfæri. Margrét Tryggvadóttir kom einnig í pontu, fyrir hönd Sólar hópsins, og færi leikskólanum bækur.
Leikskólinn var svo opinn til skoðunar fyrir gesti og var umtalað hversu vel heppnuð þessi bygging er. Útisvæðið er óðum að verða tilbúið en börnin geta nú þegar leikið á litlum hluta lóðarinnar.