- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Árið 2017 var gerð sameiginleg lögreglusamþykkt fyrir sveitarfélögin í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi.
Samþykktin var unnin af starfshópi sem stjórn samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) skipaði og henni var meðal annars ætlað að auðvelda störf lögreglu en áður voru mismunandi samþykktir í gildi hjá sveitarfélögunum fjórtán.
Meðal þess sem samþykktin fjallar um eru málefni sem hafa verið áberandi í umræðunni í kjölfar fjölgunar ferðamann á Suðurlandi, svo sem hvar heimilt er að gista í tjöldum, húsbílum og öðrum farartækjum ætluðum til gistingar. Það hefur ekki alltaf verið ljóst hvað má og hvað má ekki í þessum efnum en samþykktin gefur þjónustuaðilum, sveitarfélögum og eftirlitsaðilum tækifæri á að koma þessum samræmdu upplýsingum betur til skila til gesta.
Í samþykktinni kemur m.a. þetta fram:
12. gr.
Við alfaraleið í byggð er óheimilt að gista í tjöldum, húsbílum, hjólhýsum, fellihýsum, tjaldvögnum og öðrum sambærilegum búnaði, utan skipulagðra tjaldsvæða.
13. gr.
Ekki má ganga örna sinna eða kasta af sér þvagi á almannafæri eða á lóð, land eða híbýli annars manns. Hver sem það gerir skal hreinsa upp eftir sig.
Lögreglusamþykktin gildir fyrir lögsagnarumdæmi eftirtalinna fjórtán sveitarfélaga: Sveitarfélagsins Hornafjarðar, Skaftárhrepps, Mýrdalshrepps, Rangárþings eystra, Rangárþings ytra, Ásahrepps, Sveitarfélagsins Árborgar, Flóahrepps, Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Hrunamannahrepps, Bláskógabyggðar, Grímsnes- og Grafningshrepps, Hveragerðisbæjar og Sveitarfélagsins Ölfuss.