- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Minnisblað sveitarstjóra, lagt fram á fundi sveitarstjórnar 16. maí 2024.
Að venju stikla ég hér á stóru um nokkur af þeim helstu verkefnum sem við hjá Rangárþingi eystra erum að fást við þessa dagana. Undanfarnir dagar og vikur hafa verið viðburðaríkar, enda vorið og sumarbyrjun tími mikilla anna hjá okkur flestum.
Ársreikningur
Ársreikningur sveitarfélagsins Rangárþings eystra fyrir árið 2023 er á dagskrá fundar okkar í dag og verður lagður fram til síðari umræðu. Það er ljóst að staða sveitarfélagsins er verulega sterk, þó svo að á undanförnum árum höfum við staðið í umtalsverðum fjárfestingum og framkvæmdum. Rekstrarniðurstaða samantekinna reikningsskila er jákvæð um 288 m.kr. og er afkoman 247 m.kr. betri en áætlun gerði ráð fyrir. Þessu ber m. a. að þakka aukinni ásókn í búsetur í Rangárþingi eystra, öflugu atvinnulífi, mikilli uppbyggingu, auknum tekjum úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga og ekki hvað síst öflugu starfsfólki og forstöðumönnum sveitarfélagsins. Auknar tekjur eru vissulega ánægjulegar, en það sem við getum þó verið stoltust af er að rekstur sveitarfélagsins á árinu 2023 var í góðu jafnvægi og í samræmi við áætlanir þ.e. útgjöld á pari við áætlun. Ég geri fastlega ráð fyrir því að líkt og á síðasta ári verði sveitarstjórn einhuga í því að láta íbúa sveitarfélagsins njóta góðs af góðum árangri með aukinni fjárfestingu í innviðum og annarri þjónustu við íbúa. Sveitarstjórn Rangárþings eystra tók þá ákvörðun í vinnu við fjárhagsáætlanagerð fyrir árið 2024 að engar hækkanir yrðu á gjaldskrám er snúa að leik- og grunnskóla, ásamt því að engin hækkun varð á milli ára á sorphirðu- og eyðingargjöldum. Það voru góð fyrirheit og vonandi næst samstaða um áframhald í þeirri vegferð til frekari hagsbóta fyrir íbúa í Rangárþingi eystra.
Framkvæmdir fram undan
Nú fara í óðaönn framkvæmdir sumarsins að tínast á dagskrá og verða að veruleika. Eins og áður hefur komið fram eru talsverðar framkvæmdir fyrirhugaðar á skóla- og íþróttasvæðum. Einnig gefst tækifæri til viðhaldsframkvæmda innanhúss þegar stofnanir loka vegna sumarfría. Fyrirhugað er að halda áfram með framkvæmdir í Hvolsskóla þar sem skipt verður um físar á gólfum og hljóðvist bætt í matsal og á yngsta stigi. Íslenska sumarið er yfirleitt frekar stutt og því er nauðsynlegt að allar framkvæmdir séu vel skipulagðar og undirbúnar til að hægt sé að klára þær á sem stystum tíma. Talsverður kraftur verður lagður í framkvæmdir til að bæta öryggi gangandi vegfarenda t. d. með niðurtektum við gangbrautir, gerð hraðahindrana og bættum aðgengismálum, ekki hvað síst í kringum skóla og leikskóla. Nýir göngustígar verða lagðir í tengslum við uppbyggingu í Hallgerðartúni og verða þeir tengdir við núverandi stígakerfi. Einnig er ráðgerð endurbygging á hluta af eldri stígum. Malblikunar framkvæmdir eru áætlaðar í öðrum áfanga Hallgerðartúns og ýmsar aðrar lagfæringar á öðrum stöðum í sveitarfélaginu. Framkvæmdir við nýtt bílastæði við Skógafoss eru hafnar og ganga þær vel. Fjöldinn allur af smærri viðhalds og framkvæmdaverkefnum er á dagskrá sumarsins sem miða að fegrun umhverfis og aukins öryggis gangandi og akandi vegfarenda.
Markaðs- og kynningarfulltrúi / Garðyrkjustjóri
Sigurmundur Páll Jónsson hefur verið ráðinn í stöðu markaðs- og kynningarfulltrúa sveitarfélagsins og bjóðum við hann hjartanlega velkominn til starfa. Mikill áhugi var á starfinu og fjöldinn allur af hæfum umsækjendum sem sótti um stöðuna. Eftir talsvert strangt ráðningarferli sem stýrt var af ráðningarstofunni Intellecta var Sigurmundur metinn hæfastur til starfsins. Öðrum umsækjendum þökkum við að sjálfsögðu fyrir að sýna starfinu áhuga og óskum þeim öllum velfarnaðar í því sem þeir taka sér fyrir hendur. Staða garðyrkjustjóra sveitarfélagsins var auglýst fyrir skömmu og stendur ráðningarferli nú yfir. Vonast er til þess að hægt verði að ráða í stöðuna á allra næstu dögum.
Öruggara Suðurland
Þann 18. apríl síðastliðinn undirritaði undirritaður f. h. Rangárþings eystra ásamt öllum sveitarstjórum á Suðurlandi, lögreglustjóra, sýslumanni, forstjóra HSU, skólameisturum Fsu, FAS og ML, samstarfsyfirlýsingu um öruggara Suðurland. Um er að ræða svæðisbundið samráð gegn ofbeldi og öðrum afbrotum sem sett var á laggirnar af lögreglustjóranum á Suðurlandi. Helstu markmið verkefnisins eru m. a. að þróa grundvöll fyrir afbrotaforvarnir milli lögregluyfirvalda og samstarfsaðila, með sameiginlegum áherslusviðum og markmiðum þróuðum út frá svæðisbundnum aðstæðum, efla samvinnu við úrlausn mála og vinnslu á tölfræði. Það er trú mín að um tímamótaverkefni sé að ræða sem muni stuðla að enn öruggara Suðurlandi.
Leikskólinn Aldan vekur eftirtekt
Leikskólinn Aldan vekur verðskuldaða eftirtekt út um allt land. Þá ber þar helst að nefna það metnaðarfulla starf sem þar er rekið ásamt framúrskarandi aðstæðum til að sinna kennslu jafnt innandyra sem utan. Fyrstu mánuðir starfs nýs leikskóla hafa gengið einkar vel og er mikil ánægja meðal barna, starfsmanna og foreldra með nýtt húsnæði og lóð leikskólans. Það hefur verið talsverð ásókn frá leikskólakennurum, fagaðilum, hönnuðum, alþingismönnum, sveitarstjórnarmönnum og almenningi í að bóka heimsóknir og skoðunarferðir í leikskólann okkar og ég get fullyrt að þeir sem hafa komið og skoðað fara þaðan með stjörnur í augunum yfir okkar glæsilegu aðstöðu og góða skólastarfi. Við getum verið verulega stolt af því sem samfélag hversu vel við höfum búið að okkar dýrmætasta fólki.
LOOP ráðstefna
Undirritaður sótti ráðstefnu til Kaupmannahafnar í lok apríl. Ráðstefnan nefnist LOOP og tekur á málefnum er snúa að hringrásarhagkerfinu í sinni víðustu mynd. Fjöldi fyrirlestra var á ráðstefnunni um allt milli himins og jarðar er snýr að endurvinnslu, endurnotkun og að draga úr notkun. Einnig voru með í för á ráðstefnuna fulltrúi frá SASS og framkvæmdarstjóri Sorpstöðvar Rangárvallasýslu. Sama ferð var einnig nýtt til að skoða stærstu sorpbrennslu Danmerkur sem staðsett er nánast í miðbæ Kaupmannahafnar og einnig var skoðuð ein sú allra flottasta móttöku, eða grenndarstöð sem undirritaður hefur séð. Það er ljóst að í okkar málum getum við alltaf gert betur og er ég viss um að sú þekking sem aflað var í þessari ferð komi til með að nýtast okkur til áframhaldandi þróunar á starfssvæði Sorpstöðvar Rangárvallasýslu. Verið er að vinna í kynningu eftir ferðina og verður gaman að geta lagt hana fram og miðlað þekkingu til kjörinna fulltrúa og almennings.
Menningarviðburðir
Það hefur verið nóg að snúast í viðburðar- og menningarmálum undanfarnar vikur. Fjölmenn þjóðbúningamessa var haldin í Stórólfshvolskirkju sem endaði með kaffisamsæti í Hvolnum. Æskulýðssýning Geysis var glæsileg að vanda þar sem börn á öllum aldri sýndu listir sínar í troðfullri Rangárhöll við dynjandi lófaklapp. Tónleikar hafa verið haldnir vítt og breitt, kvennakórar, karlakórar og aðrir listamenn hafa stigið á stokk hver á fætur öðrum. Leikfélag Rangæinga setti upp leikritið „Með vífið í lúkunum“ í Njálsbúð. Sýningin vakti mikla lukku og nánast uppselt var á allar sýningar. Það er ekki hægt að lofsyngja nóg alla þá sem koma að þessum æskulýðs- og menningarviðburðum hér í Rangárvallasýslu. Kærar þakkir til ykkar allra.
Bæjar- og sveitarstjóramót í Múlaþingi
Undirritaður sótti svokallað bæjar- og sveitarstjóramót sem haldið var í sveitarfélaginu Múlaþingi í byrjun maí. Um er að ræða árlegan viðburð þar sem bæjar- og sveitarstjórar hittast, skiptast á skoðunum, deila reynslu og þekkingu, ræða málefni líðandi stundar og efla sín tengsl. Það eru mikilvæg tengsl sem gott er að búa að, því flest erum við að fást við sambærilega hluti og oft og tíðum ómetanlegt að geta leitað í reynslubrunn annarra. Í Múlaþingi fengum við góða kynningu á því nýja sameinaða sveitarfélagi, þeim áskorunum sem þau hafa mætt og hvernig hefur verið leyst úr. Ferðast var víðs vegar um sveitarfélagið með viðkomu hjá hinum ýmsu fyrirtækjum og stofnunum, en líkt og hér hjá okkur í Rangárþingi eystra er mikið um að vera í sveitarfélaginu þegar kemur að uppbyggingu í hinum ýmsu greinum.
Sala Hlíðarvegar 14
Líkt og flestum er væntanlega kunnugt um, hefur sveitarfélagið selt eign sína að Hlíðarvegi 14, sem undanfarin ár hefur hýst Sögusetrið og Kaupfélagssafnið. Fyrirhuguð er talsverð uppbygging í húsnæðinu hjá nýjum eiganda og verður spennandi að fylgjast með henni og óskum við honum alls hins besta. Hins vegar er þá komið að ákveðnum kaflaskilum er varða Sögusetur og Kaupfélagssafn. Hvorutveggja voru gríðarlega framsækin og mikilvæg verkefni á sínum tíma og þar var unnið mikið og óeigingjarnt frumkvöðlastarf sem ber að þakka fyrir. Hins vegar hafa tímarnir breyst og ljóst að komið er að lokum. Sýningarhönnuður beggja sýninga hefur verið fenginn til að stýra því verki sem felst í því að leggja sýningarnar niður í núverandi mynd. Sýningargripum þarf að koma til sinna eigenda og öðrum til geymslu á góðum stað. Viðræður eru nú þegar í gangi við Skógasafn um hýsingu á hluta Kaupfélagssafnsins, enda ómetanleg saga þar, sem ber að varðveita.
Að lokum
Samkvæmt dagatalinu er komið sumar og nánast útséð með að við sleppum við hret, við vonum allavega það besta. Skólahald þessa vors fer að líða undir lok og alltaf verður erfiðara og erfiðara að pína börnin í bólið á fallegum vor- sumarkvöldum. Það skilur maður líka vel, með sumarkomu kemur líka ákveðin orka og bjartsýni sem maður tekur fagnandi. Gleðilegt sumar kæru íbúar og samstarfsmenn.
Anton Kári Halldórsson
Sveitarstjóri Rangárþings eystra