- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Minnisblað sveitarstjóra, lagt fram á 318. fundi sveitarstjórnar 9. nóvember 2023.
Fundir, ráðstefnur og áætlanagerð hafa verið undirstöður í vinnu sveitarfélagsins frá síðasta sveitarstjórnarfundi. Dagskrá flestra daga er þétt skipuð og á það eflaust við hjá flestum íbúum sveitarfélagsins þessi misseri. Einnig er mikið í gangi er snýr að menningarlífi í sveitarfélaginu, allskonar viðburðir og mikil fjölbreytni t.d. tónleikar, hátíðir, kórar, leikfélög ofl.
SASS þing í Vík
Ársþing SASS (Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga) var haldið í Vík í Mýrdal dagana 26. – 27. október sl. Rangárþing eystra átti í fyrsta skipti 5 fulltrúa á þinginu, en fer fjöldi fulltrúa hvers sveitarfélags eftir íbúafjölda. Þingið heppnaðist einkar vel þar sem málefni landshlutans voru rædd á breiðum grunni sem skilaði sér í sameiginlegum áliktunum um hin ýmsu málefni er varða landshlutann og framgang hans til framtíðar. Í tengslum við þingið eru einnig haldnir aðalfundir Sorpstöðvar Suðurlands þar sem undirritaður er formaður stjórnar og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Á þeim fundum er farið yfir verkefni síðasta starfsárs ásamt því að staðfesta áætlanir og verkefni komandi árs.
Fjárhagsáætlanagerð – Fjárfestingaráætlun – Gjaldskrár
Sveitarstjórnarfulltrúar, fjármálastjóri og forstöðumenn stofnana hafa undanfarið lagt mikla vinnu í gerð metnaðarfullrar fjárhagsáætlunar Rangárþings eystra fyrir árið 2024 og er hún lögð fram til fyrri umræðu á sveitarstjórnarfundi í dag. Góð samvinna hefur verið meðal allra fulltrúa í sveitarstjórn á vinnufundum sem haldnir hafa verið reglulega síðan í september. Áætlunin lítur vel út og ljóst að sveitarfélagið er vel í stakk búið til uppbyggingar næstu ára. Í fjárfestingaráætlun er m.a. gert ráð fyrir áframhaldandi gatnagerð, gerð göngustíga, endurbótum ýmissa mannvirkja, nýjum körfuboltavelli og undirbúningi að gerð gervigrasvallar, en stærsti einstaki liður fjárfestingaráætlunar er gerð nýs bílastæðis við Skógafoss. Gjaldskrár sveitarfélagsins munu flestar verða uppfærðar samkvæmt vísitölu, en í ljósi góðrar stöðu sveitarfélagsins hefur verið ákveðið að þær gjaldskrár sem snúa að skóla- og leikskólamálum hækki ekki og haldist óbreyttar á næsta ári. Með þessu vill sveitarstjórn koma til móts við fjölskyldufólk í sveitarfélaginu, en ljóst er að hátt vaxtastig bitnar hvað harðast á þeim hópi íbúa. Einnig er ánægjulegt að segja frá því að tillaga frá Sorpstöð Rangárvallasýslu um óbreytta gjaldskrá liggur fyrir fundinum, en mörg sveitarfélög hafa þurft að hækka sínar gjaldskrár í þeim efnum til muna, til að mæta m.a. auknum kröfum um flokkun sorps og endurnýtingu. Þessu ber að þakka góðum árangri íbúa sveitarfélaganna við flokkun úrgangs og sorpstöðvarinnar í því að finna verðmæta farvegi til endurnýtingar- og notkunar. Eins og áður sagði verður fjárhagsáætlun lögð fyrir sveitarstjórn í dag til fyrri umræðu og getur því tekið einhverjum breytingum á milli umræða, en seinni umræða um fjárhagsáætlun verður tekin á desemberfundi sveitarstjórnar.
Lóðaúthlutanir
Nú hafa verið auglýstar lóðir lausar til úthlutunar í 3. áfanga Hallgerðartúns ásamt lóðum við Ormsvöll, Hvolsveg og á Ytri Skógum. Umsóknarfrestur er til 13. nóvember og mun lóðunum verða úthlutað á næsta fundi byggðarráðs Rangárþings eystra. Um er að ræða fjölbreyttar lóðagerðir fyrir, einbýlis-, rað-, par- og fjölbýlishús ásamt lóðum undir léttan iðnað og verslun- og þjónustu. Erfitt var að áætla hver eftirspurn yrði, en óhætt er að segja að hún virðist ætla að verða talsverð, nú þegar hafa 35 umsóknir borist og því ljóst að draga þarf um úthlutun einhverra lóðanna. Eitt af mörgum mikilvægum verkefnum hvers sveitarfélags er að geta boðið upp á fjölbreytt lóðaúrval á hverjum tíma til að stuðla að uppbyggingu sveitarfélagsins með fjölgun íbúa ásamt því að skapa fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifæri.
90 ára afmæli Hvolsvallar
Þann 5. nóvember var haldið upp á 90 ára afmæli Hvolsvallar. Í sögulegu samhengi eru 90 ár kannski ekki mikið, en virkilega fróðlegt og áhugavert að líta yfir farinn veg og sjá hversu miklu hefur verið áorkað á síðustu 90 árum. Undirritaður hafði því miður ekki tök á því að sækja hátíðina en samkvæmt vitnisburðum viðstaddra tókst hún í alla staði frábærlega. Ég vil f.h. sveitarfélagsins þakka þeim fjölmörgu sem sóttu hátíðina og sérstaklega vil ég þakka markaðs- og menningarnefnd og markaðs- og kynningarfulltrúa fyrir vel skipulagða hátíð og dagskrá. Að síðustu vil ég þakka þeim sem lögðu hönd á plóg og fluttu erindi og önnur atriði á hátíðinni.
Aðalfundur Bergrisans – VISS Hvolsvelli
Aðalfundur byggðasamlagsins Bergrisans var haldinn á Borg í Grímsnesi þann 16. október. Byggðasamlagið er rekið á vegum sveitarfélaga á Suðurlandi og fer með málefni fatlaðra. Á fundinum voru hefðbundin aðalfundarstörf, en þar ber samt helst að nefna að samþykkt var að auka framlag til VISS vinnustaðarins á Hvolsvelli umtalsvert. Vinnustaðurinn er í dag rekinn í gamla matsal Kirkjuhvols sem engan veginn ræður orðið við þá starfsemi sem á sér stað. Biðlisti er eftir plássum til að komast í vinnu, en vegna aðstöðu og plássleysis hefur það ekki verið hægt. En með auknum framlögum Bergrisans skapast svigrúm til þess að athuga með stærra húsnæði og því hefur verið ákveðið að kanna möguleikann á því að vinnustaðurinn færist í hluta af Örkinni, gamla leikskólanum. Með því móti verður hægt að mæta þörf um fleiri starfsmenn og einnig hefur vinnustaðurinn þá tök á því að taka að sér fleiri verkefni við betri starfsaðstæður.
Njálulestur í Hvolsskóla
25. október fór fram hinn árlegi Njáluupplestur í Hvolsskóla. Undirritaður varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að setja hátíðina. Allur dagurinn var svo undirlagður í lestri Njálu í bland við fjölbreytt tónlistaratriði nemenda Hvolsskóla. Það er virðingarvert við Hvolsskóla að halda Njálu í heiðri. Sögur og jafnvel góðar sögur, eins og Njálssaga lifa ekki til eilífðarnóns ef enginn segir þær, talar um þær og nýtur þeirra. Ef enginn heldur þeim á lofti, þá er hætta á því að þær gleymist. Það er synd, því sögur geta frætt okkur um svo ótal margt, t.d. menningu liðins tíma, andrúmsloft, búsetuhætti, tíðaranda, skoðanir og lífsviðhorf fólks. Takk kærlega Hvolsskóli fyrir ykkar frábæra starf.
Skipulagsdagurinn
Skipulagsdagurinn 2023 var haldinn þann 19. október. Dagurinn er er árlegur viðburður á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Skipulagsstofnunar þar sem kastljósinu er beint að helstu áskorunum skipulagsmála hvers tíma. Helstu umræðuefni þessa dags voru endurskoðun Landsskipulagsstefnu, uppbygging húsnæðis og lífsgæði í byggðu umhverfi, aðlögun að loftlagsbreytingum og skipulag á miðhálendi Íslands. Undirritaður var í pallborði í umræðuhluta varðandi skipulag miðhálendis Íslands þar sem meðal annars var rætt svæðisskipulag Suðurhálendis sem unnið er af sveitarfélögum á Suðurlandi og fer brátt í auglýsingarferli. Það er um margt mjög merkilegt skipulag þar sem 11 sveitarfélög á Suðurlandi sem hafa skipulagsvald á um ¼ miðhálendis Íslands hafa samræmt sína stefnumörkun til framtíðar. Það er skýr krafa sveitarfélaganna að tekið verði ríkt tillit til þess við mótun Landsskipulagsstefnu er varðar miðhálendi Íslands.
Framkvæmdir – Festi – VHT – LAVA – Hallgerðartún
Framkvæmdir við 3. áfanga gatnagerðar í Hallgerðartúni eru á lokametrunum. Verkið hefur gengið vel og er gott að ná að ljúka því áður en gerir harðavetur. Frekari gatnagerðarframkvæmdir munu svo fá að bíða fram á næsta vor. Byggðarráð hefur veitt Festi framlengingu á vilyrði fyrir lóðum á milli Hlíðarenda og apóteksins. Unnið er að hönnun reitsins í samvinnu fyrirtækisins og sveitarfélagsins. Vonast er til þess að geta hafið ferli við deiliskipulagsbreytingu innan tíðar. Byggðarráð hefur falið undirrituðum að undirrita samkomulag við VHT ehf. um uppbyggingu á miðbæjarsvæði Hvolsvallar. VHT er nú að vinna að hönnun húsa og er vonast til þess að framkvæmdir við fyrsta áfanga sem tekur til bygginga við Vallarbraut og Bæjarbraut geti hafist sem fyrst. Nýlega fundaði undirritaður ásamt skipulags- og byggingarfulltrúa með lóðarhöfum við LAVA. Þar voru kynntar fyrstu hugmyndir af 260 herbergja hóteli sem áætlað er að rísi fyrir aftan LAVA. Lóðarhafar hafa hug á því að hefja framkvæmdir sem allra fyrst, með það fyrir augum að geta tekið í notkun 1. áfanga hótelsins um 100 herbergi strax næsta sumar. Um er að ræða einingahús sem flutt eru tilbúin til landsins og því er framkvæmdatími mjög stuttur.
Að lokum
Líkt og fram hefur komið við lestur þessa minnisblað er í mörg horn að líta í Rangárþingi eystra og gaman að vera til. Einnig eru fjöldamörg önnur verkefni í gangi sem ekki rötuðu í minnisblað þetta. Nú styttist óðum í jólin og undirbúningsvinna vegna skreytinga sveitarfélagsins farin á fullt skrið. Jólaljós sveitarfélagsins verða tendruð þann 16. nóvember með hátíðlegum hætti líkt og undanfarin ár. Að þessu sinni fær þó mastrið okkar góða að fylgja með, það verður gott, því það vísar okkur veginn heim.
Anton Kári Halldórsson
Sveitarstjóri Rangárþings eystra