Skipulagsstofnun hefur nú tekið í gagnið nýjan vef sem kallaður er Skipulagsgátt og með gáttinni er bætt til muna gegnsæi og aðgengi að upplýsingum um skipulagsmál og einstakar framkvæmdir. Skipulagsgáttin er liður í þeirri þróun sem nú stendur yfir við að efla rafræna stjórnsýslu og stafræna þjónustu stofnana ríkisins.

Í Skipulagsgáttinni verða birt gögn um skipulagsmál, umhverfismat og leyfisveitingar jafnóðum og þau verða til. Þar er hægt að finna upplýsingar um öll mál í vinnslu, setja fram athugasemdir og ábendingar við mál á kynningartíma og nálgast endanleg gögn og afgreiðslur. Í gegnum Skipulagsgáttina er aðgengi að skipulags- og umhverfismatsferlum einfaldað og almenningur getur fylgst með og látið sig málin varða milliliðalaust.

Í gáttinni er kortasjá þar sem öll mál eru skráð með staðsetningu. Í kortasjánni er auðvelt að leita uppi mál í næsta umhverfi en einnig býður kortasjáin upp á að sía mál út frá tegund, hvar það er statt í skipulagsferlinu auk helstu efnisatriða. Einnig er hægt að vakta mál út frá hnitum ákveðinnar staðsetningar.

Rangárþing eystra er nú þegar byrjað að nýta sér Skipulagsgáttina og þegar fram líða stundir verða skipulagsmál eingöngu aðgengileg gegnum gáttina. Áfram verða þó settar inn fréttir á heimasíðu sveitarfélagsins þegar ný mál eru í ferli til að minna á gáttina og vísa inn á hana.

Íbúar eru hvattir til að fylgjast með fundargerðum Skipulags- og umhverfisnefndar og Skipulagsgáttinni til að fá yfirsýn yfir þau skipulags- og byggingarmál sem verið er að vinna að í Rangárþingi eystra.

 

Þóra Björg Ragnarsdóttir

Skipulags- og byggingarfulltrúi

Rangárþings eystra