- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Rangárþing eystra auglýsir eftir námsmönnum í grunn- og meistaranámi á háskólastigi til að taka þátt í nýsköpunarverkefnum þar sem sótt er um styrk til Nýsköpunarsjóðs námsmanna í samstarfi við sveitarfélagið Rangárþing eystra.
ATH. Umsóknarfrestur er til 8. maí 2020, kl. 16:00.
Eftirfarandi eru hugmyndir af verkefnum:
Uppbygging Njálusýningar og Njálurefils
Verkefni um viðskiptaáætlun fyrir Njálusýningu og Njálurefil Sögusetursins á Hvolsvelli. Skilgreina þarf fjárfestingu í sýningaraðstöðu, nýrri sýningu Njálu, aukinnar notkunar safnisins og tengdum viðskiptatækifærum. Á grunni áætlunarinnar þarf að vinna útboðsgögn sem verða auglýst með það markmið að einkaaðilar taki yfir rekstur safnsins og uppbyggingu samkvæmt viðskiptaáætlun.
Verkefni tengt skipulagsmálum og markaðssetningu
Verkefni tengt því að vinna ný gögn og aðlaga fyrirliggjandi gögn að Kortasjá sveitarfélagsins Rangárþing eystra. Um er að ræða skipulag í þéttbýli og dreifbýli sem innifelur nýja íbúðabyggð, göngu- og hjólreiðaleiðir.
Kortleggja landbúnaðarland með áherslu á land á eyðijörðum í sveitarfélaginu og flokkun landbúnaðarlands með tilliti til gæða lands.
Verkefni tengt bættri lýðheilsu og samgöngum
Verkefni sem tæki á greiningu á tækifærum til að bæta aðgengi að virkum ferðamáta. Greina þarf núvernadi stöðu, rýna í skipulag og koma með tillögur að úrbótum og nýjum hugmyndum til að virkur ferðamáti verði fyrsta val íbúa og gesta í þéttbýli og næsta nágrenni Rangárþings eystra. Sveitarfélagið er í innleiðingarferli fyrir heilsueflandi sveitarfélag og þarf niðurstaða verkefnisins að miða að því innleiðingarferli í víðasta skilningi.
Kennsluhættir í grunnskóla og fjarkennsla
Verkefni sem tæki á greiningu tækifæra í fjarkennslu nemenda á grunnskólastigi. Nú á tímum COVID-19 hefur skólahald verið með afar breyttu sniði og útfært á mjög mismunandi máta um land allt. Verkefnið fælist í greiningu á þeim úrræðum sem nýtt voru og upplifun og árangri nemenda og kennara. Niðurstöður verkefnisins gætu nýst til stefnumóturnar og umbóta til framtíðar.
Íbúar af erlendum uppruna í Rangárþingi eystra
Verkefni um rannsókn á stöðu, líðan og samfélagsþátttöku íbúa af erlendum uppruna í Rangárþingi eystra.
Markmið verkefnisins væri að afla upplýsinga um stöðu, líðan, viðhorf, væntingar og samfélagsþáttöku íbúa af erlendum uppruna í Rangárþingi eystra og greiningu á upplifun þeirra á þeirri þjónustu sem boðið hefur verið uppá og hvaða þættir hafa áhrift á farsæla samfélagsþátttöku og tungumálafærni með það að leiðarljósi að skapa aukin tækifæri til aðlögunar.
Markmið er að hægt verði að nýta niðurstöður rannsóknar og úttektar til að endurskilgreina og bæta starf tengiliðar erlendra íbúa í Rangárþingi eystra.
Fjölbreytt verkefni koma til greina
Ekki er um tæmandi lista af verkefnum að ræða heldur einungis tillögur. Rangárþing eystra er framsækið sveitarfélag í örum vexti og er opið fyrir alls kyns hugmyndum og hvetjum við nemendur til að hafa samband ef áhugi er fyrir hendi.
Frekari upplýsingar veitir tengiliður verkefnisins, Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri í síma 4884200 eða á netfanginu anton@hvolsvollur.is
Framkvæmd
Verkefnin byggja á umsóknum til Nýsköpunarsjóðs námsmanna. Greiddur styrkur til nemenda er 300.000 kr. á mánuði í hámark þrjá mánuði fyrir nemanda. Styrkir eru greiddir út í byrjun júlí, ágúst og september. Rangárþing eysra býður upp á nettengingu og skrifstofuaðstöðu fyrir þá sem vilja.
Umsóknarfrestur til Nýsköpunarsjóðs námsmanna er 8. maí kl. 16:00. Áhugasamir nemendur hafi samband við tengiliði fyrir þann tíma óski þeir aðstoðar við umsóknina.
Heimasíðu Nýsköpunarsjóðs námsmanna og nánari upplýsingar má skoða hér.