- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Okkar eini sanni Óli Elí hefur verið tilnefndur til hinna íslensku lýðheilsuverðlauna. Verðlaunin voru veitt í fyrsta skipti árið 2023 í samstarfi við Geðhjálp, heilbrigðisráðuneytið, íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og landlæknisembættið og eru veitt verðlaun í tveimur flokkum, annars vegar í flokki starfsheildar og hins vegar í flokki einstaklinga.
Óli er einn af þremur einstaklingum tilnefndum í flokki einstaklinga og segir í umsögn hans
,,Ólafur Elí Magnússon. Eldhugi sem hefur unnið ötullega að hvers kyns íþróttastarfi í Rangárþingi eystra í rúm 25 ár. Bæði hefur hann sinnt íþróttakennslu í Hvolsskóla frá 1995, staðið fyrir sívinsælum íþróttaskóla fyrir 4-6 ára börn í tvo áratugi og haldið sundnámskeið á vorin. Hann hefur þjálfað íbúa í borðtennis, blaki, badminton, glímu, frjálsum og ringó svo eitthvað sé nefnt og var einn af stofnfélögum Íþróttafélagsins Dímons þar sem börn og fullorðnir í sveitarfélaginu fá tækifæri til að stunda ýmsar íþróttir.“
Markmið með verðlaununum er að vekja athygli á mikilsverðu framlagi á sviði lýðheilsu og auka með þeim hætti áhuga á bættri heilsu og líðan íslensku þjóðarinnar.
Tilkynnt verður um verðlaunahafa á morgun, 25.apríl á Bessastöðum og verður athöfninni sjónvarpað á RÚV og hefst útsending kl 19:40.
Rangárþing eystra óskar Óla Elí til hamingju með tilnefninguna sem hann er vel að kominn fyrir sitt ötula starf í gegnum árin.