- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Kæru íbúar í Rangárþingi eystra.
Einhvers staðar hefur maður heyrt því fleygt að engar fréttir séu góðar fréttir. En þannig er kannski staðan hjá okkur í Rangárþingi eystra þessa dagana. Ljóst er að íbúar eru allir að leggja sitt af mörkum til að hamla útbreiðslu veirunnar. Engin ný smit hjá okkur á síðustu vikum og fækkar stöðugt þeim sem þurfa að vera í sóttkví. Þetta er langhlaup sem við tökum þátt í og því mikilvægt að við missum ekki dampinn. Við þurfum að vera á tánum og halda áfram að gera allt sem í okkar valdi stendur. Það hefur sýnt sig að það skilar árangri. Vissulega tekur það á taugarnar og ég hugsa að allir séu í sömu stöðu og ég þ.e. að geta ekki beðið eftir því að þetta verði yfirstaðið. Já og það mun gerast fyrr en varir.
Hér á mínu heimili hefur þetta alveg tekið á taugarnar öðru hvoru og yngsta manninum á heimilinu þykir full mikið um allt það sem er bannað. En það hefur líka skilað sér í mörgum og góðum samverustundum sem við hefðum annars farið á mis við. Hér hefur t.d. stóri spila- og púslkassinn stút fullur af allskyns spilum og púslum verið dregin niður af lofti og setið við löngum stundum. Heljarinnar álag hefur verið á eldavélina sem ræst er snemma morguns og dælir hverri kökunni á fætur annarri á borð heimilismanna. Áhrif þess á undirritaðan eru samt kannski ekkert sérlega æskileg, en við tökum bara stöðuna á því þegar fram líða stundir.
Sveitarstjórn Rangárþings eystra ákvað í mars að funda í hverri viku á meðan við glímum við yfirstandandi verkefni. Heimild gafst með breytingu á sveitarstjórnarlögum að fundir sveitarstjórnar og annarra nefnda sveitarfélaga mættu vera haldnir með fjarfundabúnaði. Hefur það reynst virkilega vel og ótrúlegt hversu hratt það gengur að tileinka sér nýja hluti. Þó svo að fjarfundir komi ekki í stað hefðbundinna funda í eigin persónu vona ég svo sannarlega að vægi þeirra muni aukast innan stjórnsýslunnar í framtíðinni. Mikill tími sem sparast í ferðalögum og á allan hátt hefur stjórnsýslan möguleika á því að verða hrað- og skilvirkari. Sveitarstjórn hefur nú kynnt sínar fyrstu aðgerðir að viðspyrnu vegna heimsfaraldursins. Það ríkir mikil samstaða í sveitarstjórn um að sveitarfélagið geri allt sem í þess valdi stendur til að fleyta okkur áfram yfir í bjartari tíma. Einungis var um allra fyrstu aðgerðir að ræða og vinnur sveitarstjórn hörðum höndum að frekari úrræðum og aðgerðum til að bregðast við af röggsemi og festu.
Skólahald í Hvolsskóla hefur gengið vel og stór hluti nemenda verið í fjarkennslu. Það er krefjandi fyrir alla, kennara, nemendur, já og líka foreldra. En allir læra nýja hluti sem án efa hægt er að nýta til góðs inn í framtíðina. Stjórnendur fóru strax þá leið að undirbúa og leggja drög að fjarkennslu um leið og ljóst var í hvað gæti stefnt. Því vorum við mjög vel undirbúin þegar þurfti að grípa til þeirra lausna. Að sjálfsögðu spilar þar líka stóra rullu viðsýni og dugnaður foreldra, því án þátttöku þeirra væri þetta ómögulegt og eflaust margir sem hafa fengið góða upprifjun í stærðfræði, íslensku, dönsku og fleiri greinum, en það getur líka verið mjög skemmtilegt og holt. Nú eru hins vegar nemendur og kennarar komnir í langþráð páskafrí og vona ég svo sannarlega að þau njóti þess, þau eiga það skilið.
Leikskólinn Örk stendur sína pligt og með talsverðum breytingum og skipulagningu hefur starfið þar gengið glimrandi vel. Við þökkum þeim foreldrum óendanlega mikið, sem brugðust við og hafa verið með sín börn heima, þannig að hægt væri að tryggja þjónustu fyrir þá sem þurfa að nýta hana. Með því móti var hægt að skipta kennarahópi í tvennt og skipta upp deildum til að fyrirbyggja að það komi til lokunnar skólans, komi þar upp smit. Það er mikilvægt að við vöndum okkur í samskiptum og upplýsingum til okkar barna á leikskólaaldri, alltaf kemur það manni jafn mikið á óvart í hverju þau eru að spá og velta fyrir sér. Þau hlakka alveg jafn mikið til og kannski meira en við, þegar baráttan við þessa veiru er yfirstaðin. Fyrir þessa krakkagrísi eru miklir hamingjudagar framundan löðrandi í súkkulaði og samveru, nýtum þá til hins ýtrasta.
Á Kirkjuhvoli býr okkar viðkvæmasti hópur. Umtalsverðar ráðstafanir hafa verið gerðar með t.d. banni á heimsóknum. Það tekur mikið á fyrir þá sem þar búa og starfa, það tekur líka mikið á okkur hin sem svo gjarnan viljum heimsækja okkar fólk og sýna því ást og umhyggju. En við stöndum þetta af okkur í sameiningu og hlökkum til þess að geta tekið utan um fólkið okkar á ný. En til þess að svo megi verða, þá þurfum við að gæta fyllstu varúðar að svo stöddu. Á Kirkjuhvoli starfar fagfólk fram í fingurgóma og því er gott til þess að vita að heimilisfólk er í bestu mögulegu höndum. Það mæðir mikið á starfsfólkinu okkar á Kirkjuhvoli á þessum tímum og sendi ég þeim mínar bestu kveðjur og hvatningu til dáða.
Á þessum tímum höfum við öll þurft að færa fórnir og gera breytingar á okkar daglega lífi. Innan skamms verður þetta yfirstaðið og ný og krefjandi verkefni taka við. Ég held að þegar það gerist verðum við öll búin að endurskoða okkar gildi og séum betur í stakk búin til að lifa okkar lífi eftir því sem veitir okkur raunverulega hamingju. Ég held að þetta verði svona soldið eins og að ýta á „restart“ takkann á tölvu, fáum tækifæri á því að byggja okkur upp frá grunni með vönduðum hætti og með áherslu á þá hluti sem skipta okkur raunverulega máli. Ég á von á því að með þessa reynslu í farteskinu verðum við betri manneskjur þegar upp verður staðið.
Að þessu sögðu biðla ég til ykkar allra að fara eftir þeim fyrirmælum sem okkur eru sett. Okkar færasta fólk vinnur allan sólarhringinn að því að tryggja öryggi okkar. Heilbrigðisstarfsfólk stendur vaktina fyrir okkur og sinnir þeim sem á þurfa að halda af gríðarlegri fagmennsku. Við hin, getum svo sannarlega lagt okkar að mörkum með einföldum hætti, en það er að hlýða Víði. Nú nálgast páskahátíðin og vorið á næsta leyti, veturinn minnti þó óþarflega mikið á sig og sínar klær sl. sólarhring. En með þrautseigju, sem við eigum nóg af, samstöðu og bjartsýni, komumst við þangað sem við ætlum okkur. Þetta er langhlaup og við munum komast í mark.
Njótið páskana og verum góð við hvort annað.
Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri Rangárþings eystra.