- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Rangárþing eystra hefur hafið vinnu við stór viðhaldsverkefni á tveimur af fasteignum sveitarfélagsins. Annars vegar er um að ræða gömlu búningsklefana og sturtur við sundlaugina á Hvolsvelli og hins vegar hluta af félagsheimilinu Hvoli á Hvolsvelli, m.a. eldhús, salerni, Pálsstofu og andyri við litla salinn. Mikil viðhaldsþörf var komin á báða þessa staði en vegna stöðugrar notkunar var það erfitt um vik.
Sem stendur er engin starfsemi í gangi í sundlauginni og félagsheimilinu vegna Covid 19 og þess vegna hentar mjög vel að byrja á framkvæmdum þar núna. Sundlaugin var byggð árið 1986 og var löngu komin tími á að huga að endurbótum þar ásamt því að bæta við aðgengi fyrir fatlaða. Þegar framkvæmdir voru komnar af stað kom m.a. í ljós raki og skemmdir sem gott er að geta lagað núna. Gert er ráð fyrir að verkinu við sundlaugina verði lokið í sumar 2020.
Sama staða er í félagsheimilinu Hvoli en þar var komin mikil þörf fyrir viðhald og m.a. er eldhúsið barn síns tíma og óhentugt að mörgu leiti. Gert er ráð fyrir nýju eldhúsi sem getur sinnt allri þeirri starfsemi sem fram fer í húsinu. Í félagsheimilinu eru fjórir salir af ýmsum stærðum og er félagsheimilið vel nýtt allt árið fyrir fjölbreytta viðburði eins og fundi, ráðstefnur, menningarviðburði og veislur af ýmsu toga. Ljóst var að kominn var tími á endurnýjun á lögnum auk þess sem að raki var kominn í gólf og gólefni. Skipt verður um salerni og einnig gert aðgengi fyrir fatlaða í þennan hluta hússins. Verklok eru áætluð í sumar.
Á myndinni eru frá vinstri Hjálmar F. Valdimarsson múrarameistari, Viðari Benónýsson múraranemi, Garðar Þorgilsson húsvörður og Jón Jónsson húsasmiður.