- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Frábær árangur á meðal þátttakenda í Jafnvægisvog FKA
Jafnvægisvogin, hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA), hélt þann 10.október sína árlegu viðurkenningarathöf. Í ár er mefjöldi viðurkenningarhafa, alls 130 aðilar en það eru þeir þátttakendur sem hafa náð að jafna kynjahlutfall í framkvæmdastjórnum.
Dr. Ásta Dís Óladóttir, prófessor við Háskóla Íslands og formaður Jafnvægisvogarinnar opnaði hátíðina og hrósaði stjórnendum fyrir eftirtektarverðan árangur í jafnréttismálum. Þá flutti Katrín Jakobsdóttir einkar skemmtilegt og hvetjandi ávarp og fór yfir stöðuna í jafnréttismálum í samfélaginu almennt og uppskar mikið lófaklapp.
Að hreyfiaflsverkefninu standa auk FKA, félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Creditinfo, Deloitte, PiparTBWA, Ríkisútvarpið, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjóvá.
Níutíu og þrjú fyrirtæki, fimmtán sveitarfélög og tuttugu og tveir opinberir aðilar hljóta viðurkenningu
Jafnvægisvogin veitti viðurkenningar til níutíu og þriggja fyrirtækja, fimmtán sveitarfélaga og tuttugu og tveggja opinberra aðila úr hópi þeirra 247 þátttakenda sem hafa undirritað viljayfirlýsingu. Markmið Jafnvægisvogar um 40/60 kynjahlutfall í efsta stjórnendalagi var haft til hliðsjónar við matið. Stór hluti þeirra þátttakenda sem hafa skrifað undir viljayfirlýsingu Jafnvægisvogarinnar hafa náð góðum árangri á þessu sviði.
"Það er frábært að sjá fjölgun í hópi viðurkenningarhafa Jafnvægisvogarinnar árið 2024, sem endurspeglar metnað fyrirtækja til að ná fram jafnrétti. Jafnrétti er mál sem snertir okkur öll, og það hefur sýnt sig í viðbrögðum við markaðsherferðinni „Ilmur af konu“, sem var haldin í tengslum við árlegu viðurkenningarhátíðina”. Þrátt fyrir þennan góða árangur viljum við hvetja fleiri til þátttöku. Það er mikilvægt að hvert og eitt fyrirtæki, stofnun eða sveitarfélag skoði stöðu sína og krefjist þess að kynjahlutfall í æðstu stjórnunarstöðum sé sem jafnast. Látum eitthvað gerast, jafnrétti er ákvörðun“ að sögn Bryndísar Reynisdóttur verkefnastjóra Jafnvægisvogarinnar.
Jafnrétti hefur bein áhrif á umhverfið
Á ráðstefnu Jafnvægisvogarinnar 2020 var kynntur nýr Jafnréttislundur FKA, sem Skógræktarfélag Reykjavíkur útvegaði Jafnvægisvoginni. Árlega frá árinu 2020 hafa forsvarskonur verkefnisins gróðursett tré í Jafnréttislundinum að ráðstefnu lokinni, eitt fyrir hvern viðurkenningarhafa.
Í ár verða gróðursett alls 130 tré eitt fyrir hvern viðurkenningarhafa árið 2024 og verður þá búið að setja niður samtals 392 tré í Jafnréttislundinum á síðustu 5 árum. Við valið er horft til þess að velja margar ólíkar tegundir af trjám, sem tákn um þann fjölbreytileika sem Jafnvægisvogin stuðlar að.
Það er markmið Jafnvægisvogarinnar að endurtaka þetta árlega og væri ánægjulegt að sjá hlíðina fyllast á næstu árum, með auknu jafnrétti.
Það er ángæjulegt að segja frá því að Rangárþing eystra hlaut viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar annað árið í röð.