- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Rangárþing eystra hefur tengst stafrænu pósthólfi á island.is, sem er miðlæg þjónustugátt stjórnvalda. Um mikið framfaraskref er að ræða í þjónustu sem eykur hraða og skilvirkni í birtingu á ábyrgðarbréfum og öðrum gögnum sem ber að birta samkvæmt lögum.
Allir einstaklingar sem fá útgefna kennitölu og allir lögaðilar sem skráðir eru í fyrirtækjaskrá hafa aðgang að sínu eigin stafræna pósthólfi.
Samkvæmt lögum 105/2021 er opinberum aðilum, þ.e. ríki, sveitarfélögum, stofnunum þeirra og öðrum opinberum aðilum, skylt að birta gögn i stafrænu pósthólfi stjórnvalda eigi síðar en 01.01.2025. Samkvæmt sömu lögum teljast gögn birt viðtakanda þegar gögnin eru aðgengileg í pósthólfi hans og á ábyrgð viðtakanda að fylgjast með hvort þeir eigi skjöl frá hinu opinbera í pósthólfi sínu. Unnið er að innleiðingu pósthólfsins samkvæmt sérstakri innleiðingaráætlun.
Fyrst um sinn er það aðeins embætti skipulags- og byggingarfulltrúa sem er að nýta sér þetta pósthólf en Rangárþing eystra mun hefja birtingu bréfa frá embættinu í stafrænu pósthólfi umsækjenda frá og með 15. apríl 2023.
Á næstu mánuðum mun Rangárþing eystra jafnframt senda önnur gögn og bréf sem ber að birta skv. lögum, í pósthólf viðkomandi viðtakenda. Á meðan unnið er að því að auglýsa þetta nýja fyrirkomulag verður birtingin í pósthólfinu til viðbótar við hefðbundna birtingu í tölvupósti og/eða útsend bréf send með landpósti.
Stefnt er að því að frá og með 1. nóvember 2023 verði birting sértækra skjala, þ.e. skjala sem beint er sérstaklega til einstaklings eða lögaðila, eingöngu birt í pósthólfi viðkomandi.
Ástæða er til að hvetja alla landsmenn til að kynna sér pósthólfið sem þeir eiga nú þegar á island.is. Einfaldasta og þægilegasta leiðin er að ná sér í island.is – appið til að hafa aðgang að pósthólfinu í símanum sínum og fá þar inn tilkynningar ef ný skjöl berast þeim í pósthólfið. Einnig er hægt að stilla pósthólfið þannig að það sendi hnipp til eiganda pósthólfsins með tölvupósti eða SMS skeyti þegar nýtt skjal hefur komið inn í pósthólf viðkomandi.