- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Fjölskyldusvið Árborgar, Fjölskyldu- og fræðslusvið Ölfuss, Fræðslu- og velferðarþjónusta Hveragerðis, Félags- og skólaþjónusta Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu og Skóla- og velferðarþjónusta Árnesþings.
Bergrisinn bs.
1. Bergrisinn bs. er byggðasamlag sem stofnað var skv. 94. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og fer með málefni fatlaðs fólks á Suðurlandi á starfssvæði eftirtalinna sveitarfélaga skv. samþykktum byggðasamlagsins: Sveitarfélagið Árborg, Hveragerðisbær, Sveitarfélagið Ölfus, Grímsnes - Grafningshreppur, Flóahreppur, Bláskógabyggð, Hrunamannahreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Ásahreppur, Rangárþing ytra, Rangárþing eystra, Skaftárhreppur og Mýrdalshreppur. Innan Bergrisans bs. eru fimm félags- og velferðarþjónustusvæði sem starfa við veitingu þjónustu í umboði byggðasamlagsins: Fjölskyldusvið Árborgar, Fjölskyldu- og fræðslusvið Ölfuss, Fræðslu- og velferðarþjónusta Hveragerðis, Félags- og skólaþjónusta Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu og Skóla- og velferðarþjónusta Árnesþings.
2. Þjónusturáð: Ráðið starfar á grundvelli starfsreglna sem samþykktar eru af stjórn Bergrisans bs. og gerir tillögur vegna stærri ákvarðana og stefnumörkunar til stjórnar Bergrisans bs. Þjónusturáð er skipað fimm félags- og velferðarþjónustusvæðum.
3. Fagteymi: Teymið starfar á grundvelli starfsreglna sem samþykktar eru af stjórn Bergrisans bs. og fjallar um öll erindi er varða sértæka þjónustu gagnvart einstaklingum og gerir tillögu að afgreiðslu þeirra til þjónusturáðs. Í fagteymi sitja fulltrúar fyrrgreindra félags- og velferðarþjónustusvæða og er skipað af þjónusturáði á grundvelli laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
I. Kafli
Almennt um stuðning við fatlað fólk
1. gr.
Lagagrundvöllur
Í reglum þessum er kveðið á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita skv. 1., 2., 3. og 5. tölul. 8. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018. Að jafnaði skal nýta almenna þjónustu samkvæmt reglum um stuðningsþjónustu, allt að 15 klukkustundum á viku, sbr. 26. og 27. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, áður en stuðningur samkvæmt reglum þessum kemur til. Öll þjónusta til fatlaðs fólks skal vera samfelld, einstaklingsbundin og samþætt í þágu notenda.
2. gr.
Markmið
Markmið stoðþjónustu samkvæmt reglum þessum er að veita fötluðu fólki stuðning til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þess og skapa því skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum, sbr. 19. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Markmiðið er að styðja notendur sem þurfa, aðstæðna sinna vegna, á stuðningi að halda við margháttaða aðstoð við athafnir daglegs lífs til þess að geta búið heima, verið sjálfstæðir og félagslega virkir. Stuðningur byggist fyrst og fremst á þeim markmiðum sem fatlað fólk setur sér til að ráða við daglegt líf.
3. gr.
Stuðningur
Stoðþjónusta er til handa þeim sem búa á eigin heimilum og þurfa stuðning vegna skertrar getu og langvarandi stuðningsþarfa þar sem stuðningsþörfum verður ekki fullnægt innan almennrar þjónustu. Um er að ræða margháttaðan stuðning sem byggist meðal annars á einstaklingsbundnum þörfum fólks með hliðsjón af óskum þess.
Með stuðningi í reglum þessum er átt við eftirfarandi þjónustuþætti:
a) Sérhæfð ráðgjöf felst í að veita fötluðu fólki og aðstandendum þeirra félagslega ráðgjöf og stuðning, t.d. varðandi ýmis réttindamál, velferðartækni og til sjálfstæðrar búsetu. Jafnframt felst ráðgjöfin í samræmingu ýmissa þátta, s.s. skóla, heimilis, tómstunda og vinnu, með því markmiði að stuðningur nýtist sem best. Sérhæfð ráðgjöf hefur það að markmiði að aðstoða fatlað fólk til sjálfshjálpar en getur einnig falist í ráðgjöf til starfsmanna stoðþjónustu.
b) Stuðningur við athafnir daglegs lífs við persónulega aðhlynningu, s.s. við að klæða sig og sinna persónulegu hreinlæti, borða og taka lyf. Auk þess er um að ræða stuðning við að útvega hjálpartæki, nýta velferðartækni o.fl.
c) Stuðningur við heimilishald er stuðningur við þau verk sem þarf að leysa af hendi á heimili einstaklings svo hann geti búið heima. Auk þess er um að ræða stuðning við að nýta velferðartækni sem auðveldar heimilishald og starfsfólki að veita þjónustuna.
d) Félagslegur stuðningur miðar einkum að því að rjúfa félagslega einangrun og hefur það markmið að styðja og hvetja til þátttöku í félags- og tómstundastarfi sem og að styðja við atvinnuþátttöku, nám o.fl.
e) Stuðningur við fatlaða foreldra vegna umönnunar barna sinna. Stuðningur er ekki veittur í þeim tilvikum þegar aðrir aðilar bera ábyrgð á að veita stuðning. Leitast er við að koma til móts við einstaklingsbundnar þarfir hvers og eins. Notandi skal vera á heimilinu þegar stuðningur er veittur og taka þátt í þeim verkum sem leysa þarf af hendi, eftir því sem kostur er.
Við veitingu stuðnings skal leitast við að nýta stafrænar og tæknilegar lausnir
Leitast skal við að koma til móts við einstaklingsbundnar þarfir hvers og eins. Ekki er gert ráð fyrir að aðstoðarfólk sé maki, sambýlisfólk eða náinn ættingi, sem heldur heimili með notanda.
II. Kafli
Skilyrði fyrir stoðþjónustu
4. gr.
Skilyrði fyrir því að umsókn um stoðþjónustu verði samþykkt
Umsækjandi skal uppfylla öll eftirtalin skilyrði til að fá stuðning samkvæmt reglum þessum.
1.Umsækjandi skal vera orðinn 18 ára. Ef einstaklingur er yngri en 18 ára vísast til reglna um stuðning við börn og fjölskyldur þeirra.
2.Umsækjandi skal eiga lögheimili í einu af þrettán sveitarfélögum sem mynda þjónustusvæði Bergrisans bs. Umsækjandi sem er með lögheimili utan þjónustusvæðisins getur sótt um stuðning samkvæmt reglum þessum en skilyrði er að umsækjandi sé með skráð lögheimili á þjónustusvæðinu á meðan þjónustan er veitt.
3.Umsækjandi skal teljast fatlaður í skilningi laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018
4.Umsækjandi skal búa í sjálfstæðri búsetu. Einstaklingar sem búa á hjúkrunarheimili eða stofnun þar sem greidd eru daggjöld frá ríkinu eiga ekki rétt á stuðningi samkvæmt reglum þessum.
5.Umsækjandi skal vera metinn í þörf fyrir stuðning samkvæmt matsviðmiðum- sjá fylgiskjal 1
6.Umsækjandi skal hafa fullnýtt þjónustu samkvæmt reglum lögheimilis sveitarfélags um stuðningsþjónustu.
Umsækjanda skal tilkynnt um hvort umsókn hans hafi verið samþykkt og hvernig umsókn hans hafi verið metin samkvæmt 5. lið 1. mgr. 4. gr. reglna þessara. Einstaklingur sem náð hefur 67 ára aldri og sækir um stuðning samkvæmt reglum þessum getur átt rétt á þjónustu ef sýnt þykir að fötlun hans stafi ekki af aldurstengdri skerðingu.
III. kafli
Umsóknir og mat
5. gr.
Aðgengi að stuðningi
Óski fatlaður einstaklingur eftir ráðgjöf og stuðningi skal panta viðtal við ráðgjafa hjá velferðarþjónustu hjá sínu lögheimilis sveitarfélagi.
Leiði viðtöl í ljós að þörf sé á frekari stuðningi samkvæmt reglum þessum skal undirrita umsókn um stuðning. Í kjölfar þess skal lagt mat á stuðningsþörf umsækjanda í samvinnu við hann samkvæmt matsviðmiðum á fylgiskjali 1.
6. gr.
Fylgigögn með umsókn og upplýsingaöflun
Við undirritun umsóknar er umsækjandi upplýstur um heimild félagsþjónustu til að afla gagna frá þeim aðilum sem þar eru tilgreindir. Heimilt er að óska eftir nauðsynlegum upplýsingum og/eða gögnum frá umsækjanda og öðrum aðilum á meðan á umsóknarferlinu stendur. Ef þörf er á skal umsækjandi fá aðstoð við öflun nauðsynlegra gagna.
Með umsókn skulu eftirfarandi gögn liggja fyrir:
1.Örorkumat tilkomið vegna fötlunar.
2.Staðfesting á fötlun, s.s. fullnægjandi læknisvottorð eða staðfesting frá Ráðgjafar- og greiningarstöð
3.Staðlað mat á umfangi stuðningsþarfa (SIS-mat), ef við á.
7. gr.
Mat á stuðningsþörf
Mat á stuðningsþörf er gert í samvinnu við umsækjanda og tekur mið af þörfum hans fyrir þjónustu eða aðstoð í daglegu lífi vegna fötlunar til að geta lifað í samfélaginu án aðgreiningar og til að koma í veg fyrir einangrun. Mat á stuðningsþörf fer fram hjá félagsþjónustu/velferðarþjónustu, á heimili umsækjanda eða öðrum vettvangi í samráði við umsækjanda. Stuðningsþarfir eru einstaklingsbundnar og taka einnig mið af þörfum og aðstæðum fjölskyldu umsækjanda.
Við mat á stuðningsþörf er horft til heildar aðstæðna umsækjanda og skipulags daglegs lífs. Markmiðið er að styðja umsækjanda við athafnir daglegs lífs til þess að geta búið heima, verið sjálfbjarga og félagslega virkur. Mat á stuðningsþörf nær einnig til möguleika á að nýta tækni, hjálpartæki og/eða þess að breyta verklagi í athöfnum daglegs lífs kjósi umsækjandi það. Stuðningur byggir fyrst og fremst á þeim markmiðum sem umsækjandi setur sér í daglegu lífi.
Við mat á stuðningsþörf og við forgangsröðun umsókna skal litið til eftirfarandi atriða þegar metið er hversu brýn þörf er fyrir stuðning:
1.Þarfa umsækjanda fyrir stuðning
2.Færni/getu og styrkleika
3.Félagslegra aðstæðna og félagslegs tengslanets
4.Samfélagsþátttöku, valdeflingar og virkni
5.Hvaða afleiðingar töf á veitingu stuðnings hafi fyrir umsækjanda
6.Annars veitts stuðnings
Vísað er til matsviðmiða á fylgiskjali 1 með reglum þessum.
Þegar mat á stuðningsþörf hefur verið framkvæmt er umsóknin tekin fyrir á fundi fagteymis og á grundvelli mats er tekin ákvörðun um innihald, umfang og eðli þess stuðnings sem veittur er og útfærður í stuðningsáætlun í samvinnu við umsækjanda. Umsækjandi fær skriflegt svar þar sem fram kemur hvernig umsókn hans hefur verið afgreidd.
Þegar um er að ræða alvarleg veikindi skal stuðningur ætíð metinn, skipulagður og samhæfður með fagaðilum heimahjúkrunar í samræmi við þarfir umsækjanda.
Sé niðurstaða mats á stuðningsþörf sú að aðstæður umsækjanda séu með þeim hætti að ekki sé þörf á stuðningi samkvæmt reglum þessum ber að synja umsókninni og skal málsmeðferð vera í samræmi við VI kafla reglna þessara.
8. gr.
Stuðningsáætlun
Áður en stuðningur hefst skal gert samkomulag um stuðning, þ.e. stuðningsáætlun, og/eða einstaklingsbundin þjónustuáætlun, sbr. 8. tl. 2. gr. laga um um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018, eftir því sem við á hverju sinni og vera í eðlilegu samhengi við aðra aðstoð. Stuðningurinn skal ætíð byggja á skýrum markmiðum og koma skal fram hvernig árangur verði metinn reglulega.
Í stuðningsáætlun skal eftirfarandi koma fram:
a.Tilgangur með stuðningi
b.Hvernig settum markmiðum með þjónustunni skuli náð
c.Gildistími samþykktrar umsóknar
d.Hvers konar stuðningur verði veittur
e.Umfang stuðnings
f.Verkefni og vinnutilhögun
g.Upphæð útlagðs kostnaðar þegar stuðningur er veittur. Miðað skal við upphæð á mánaðargrunni, sbr. viðmið félagsþjónustu/velferðarþjónustu lögheimilis sveitarfélags
Í stuðningsáætlun skal einnig kveða á um fyrirkomulag stuðnings vegna meðferðar einkafjármuna og lyklanotkunar umsækjanda.
Stuðningsáætlun skal unnin í samvinnu við umsækjanda. Komist umsækjandi og ráðgjafi ekki að samkomulagi um fyrirkomulag stuðnings skal óska eftir sérstöku mati af hálfu fagteymis Bergrisans. Tryggja skal að umsækjandi geti komið sínum sjónarmiðum á framfæri á þann hátt sem hentar viðkomandi.
9. gr.
Forgangsröðun umsókna
Uppfylli umsækjandi skilyrði 4. gr. reglna þessara og þörf er fyrir stuðning umfram sérhæfða ráðgjöf skal umsókn metin á grundvelli þeirra matsviðmiða sem tilgreind eru í 6. gr. og á fylgiskjali 1 með reglum þessum. Að mati loknu raðast umsóknir í forgangsröð á grundvelli viðmiða sem tilgreind eru á fylgiskjali 2 með reglum þessum.
Þegar umsókn um stuðning hefur verið samþykkt er gerð stuðningsáætlun og einstaklingsbundin þjónustuáætlun, þegar við á, og stuðningur getur hafist. Sé ekki unnt að hefja stuðning um leið og umsókn er samþykkt skal tilkynna umsækjanda um ástæður þess og hvenær áætlað er að stuðningur verði veittur
Ef fyrirséð er að stuðningur geti ekki hafist innan þriggja mánaða skal umsókn sett á biðlista. Umsækjandi er upplýstur um áætlaða lengd á biðtíma og hvaða stuðningur standi honum til boða á biðtímanum, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar um biðlista, forgangsröðun og úrræði á biðtíma eftir þjónustu nr. 1035/2018.
IV. kafli
Framkvæmd
10. gr. Tími og umfang stuðnings
Að jafnaði er stuðningur samkvæmt reglum þessum veittur milli kl. 07.00 og 24.00.
Stuðningur samkvæmt reglum þessum er veittur í samræmi við einstaklingsbundnar þarfir. Ákvörðun um stoðþjónustu felur í sér að stuðningur sé að jafnaði veittur í tiltekinn fjölda klukkustunda í mánuði eða í viku hverri á grundvelli mats á stuðningsþörfum.
11. gr. Gildistími og endurmat
Samþykkja skal stuðning til ákveðins tíma, í fyrsta skipti til þriggja mánaða en að þeim tíma liðnum skal endurmeta fyrirkomulagið með tilliti til framlengingar. Eigi sjaldnar en á 12 mánaða fresti skal endurmeta stuðningsáætlun, gera viðeigandi breytingar eða ljúka stuðningi. Meta skal stuðningsáætlun í samvinnu við þann sem nýtur stuðningsins. Endurmat á stuðningsáætlun skal skráð við endurnýjun stuðningsáætlunar þar sem jafnframt skal koma fram hvort stuðningur hafi skilað þeim markmiðum sem sett voru í upphafi. Þegar stuðningi lýkur skal árangur þjónustunnar skráður sérstaklega.
Þegar breytingar verða á aðstæðum og högum viðkomandi einstaklings skal endurmeta stuðningsþörf. Ef um er að ræða verulegar breytingar eftir að umsókn hefur verið samþykkt er heimilt að endurskoða gildistíma samþykkis og stuðningsáætlunar. Í þeim tilvikum sem stuðningsþörf er óbreytt þarf ekki að sækja um að nýju heldur skal endurnýja áætlun á tveggja ára fresti í samráði við viðkomandi einstakling. Fari sú endurskoðun ekki fram skal tryggja að ekki verði rof á þjónustu.
Ávallt skal tryggt að ekki verði um rof á þjónustu að ræða þegar endurmat á sér stað.
V. kafli
Ýmis ákvæði
12. gr. Ferðir og kostnaður
Að meginstefnu skal nota almenningssamgöngur þegar stoðþjónusta er veitt utan heimilis.
Þegar stuðningur er veittur í tengslum við tómstundir ber viðkomandi einstaklingi að greiða fyrir sjálfan sig þann kostnað sem þar fellur til. Félagsþjónusta/velferðarþjónusta lögheimilis sveitarfélags endurgreiðir starfsmanni útlagðann kostnað vegna þjónustunnar. Útlagður kostnaður starfsmanns skal tengdur þeim markmiðum sem sett eru í stuðningsáætlun. Miðað skal við upphæð á mánaðargrunni, sbr. viðmið félagsþjónustu/velferðarþjónustu lögheimilis sveitarfélags.
Starfsmönnum er óheimilt að taka við gjöfum eða greiðslum frá þeim er njóta þjónustu eða forráðamönnum þeirra.
Félagsþjónusta/velferðarþjónusta lögheimilis sveitarfélags greiðir starfsmanni bifreiðastyrk skv. akstursdagbók sé heimild fyrir akstri á einkabifreið samkvæmt stuðningsáætlun. Í þeim tilfellum skal miða við hámarksfjölda kílómetra á mánaðargrunni, sbr. viðmið félagsþjónustu/velferðarþjónustu. Horft skal til fjölda samþykktra tíma við ákvörðun kílómetrafjölda. Greitt er fyrir akstur samkvæmt ákvörðun ferðakostnaðarnefndar ríkisins um kílómetragjald hverju sinni.
13. gr. Vinnuaðstæður
Í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 merkir vinnustaður það umhverfi innanhúss og utan, þar sem starfsmaður hefst við eða þarf að fara um starfa sinna vegna. Þar skal gætt fyllsta öryggis og góður aðbúnaður tryggður. Starfsmaður skal hafa aðgang að þeim búnaði sem nauðsynlegur er svo hann geti sinnt starfi sínu sem skyldi.
Vinna starfsmanna í stoðþjónustu fer fram á einkaheimilum og þarf notandi eða umbjóðandi hans að tryggja að aðstæður séu þannig að áður nefndum atriðum sé fullnægt.
Skapist þær aðstæður inni á heimilinu að öryggi starfsfólks sé ógnað, t.d. vegna óreglu, áreitni eða ógnandi hegðunar, þarf tafarlaust að gera viðeigandi ráðstafanir. Fresta getur þurft þjónustu á meðan leitað er ráðgjafar og aðstoðar við að finna viðeigandi lausnir.
Starfsmönnum er óheimilt að reykja inni á heimilum notenda og notendur gangast inn á að reykja ekki meðan starfsmenn eru inni á heimilinu.
14. gr. Lyklanotkun
Ef starfsmaður þarf lykil að heimili einstaklings skal hann geymdur á starfsstöð starfsmanns. Kveða skal á um það í stuðningsáætlun og halda skal skrá yfir lyklanotkun. Það sama gildir um raflása
VI. kafli
Málsmeðferð
15. gr.
Málsmeðferð
Um málsmeðferð gilda ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 og ákvæði VII. kafla laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
16. gr. Viðeigandi aðlögun
Við alla vinnslu og meðferð umsókna samkvæmt reglum þessum skal tryggja að viðeigandi stuðningur, aðstoð og leiðbeiningar séu veittar til að umsækjandi geti nýtt sér stuðninginn. Í því felst m.a. að upplýsingar séu settar fram á því formi sem viðkomandi einstaklingur getur nýtt sér, tryggt sé að hann komi sínum sjónarmiðum á framfæri og sé kynntur réttur sinn til að vísa máli sínu lengra, telji hann þörf á.
17. gr.
Málshraði
Kanna skal aðstæður umsækjanda svo fljótt sem unnt er eftir að umsókn berst. Sama á við ef velferðarsviði lögheimilis sveitarfélags berast upplýsingar um nauðsyn á aðstoð með öðrum hætti.
Þjónusturáð Bergrisans skal taka ákvörðun í máli án óhóflegra tafa og tryggja að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast ber að skýra aðila máls frá því. Skal þá upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.
18. gr.
Samvinna við umsækjanda
Við meðferð umsóknar, öflun gagna og upplýsinga sem og við ákvarðanatöku skal hafa samvinnu og samráð við umsækjanda eftir því sem unnt er en að öðrum kosti við lögráðamann eða persónulegan talsmann hans eftir því sem við á.
19. gr.
Endurskoðun
Rétt til stoðþjónustu má endurskoða hvenær sem er. Meta skal hvort umsækjandi stoðþjónustu fullnægi skilyrðum reglna þessara og hvort breytingar sem orðið hafa á aðstæðum umsækjanda og/eða annarra heimilismanna hafi áhrif á rétt hans og umfang þjónustu.
20. gr.
Rangar eða villandi upplýsingar
Ef sannreynt er við meðferð máls að upplýsingar sem umsækjandi hefur veitt eru rangar eða villandi, stöðvast afgreiðsla umsóknarinnar á meðan umsækjanda er gefið tækifæri til að leiðrétta eða bæta úr annmörkum.
Ef umsókn um stoðþjónustu er lögð fram á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga af hálfu umsækjanda veldur það synjun umsóknar eða getur leitt til afturköllunar ákvörðunar.
21. gr.
Varðveisla gagna, trúnaður og aðgangur að gögnum
Málsgögn er varða persónulega hagi einstaklinga skulu varðveitt með tryggilegum hætti. Hafi starfsmenn kynnst einkahögum umsækjanda eða annarra í starfi sínu er leynt eiga að fara samkvæmt lögum eða eðli máls er þeim óheimilt að fjalla um þau mál við óviðkomandi nema að fengnu samþykki viðkomandi. Þagnarskylda helst eftir að starfsmaður lætur af störfum.
Umsækjandi á rétt á að kynna sér upplýsingar úr skráðum gögnum sem varða mál hans að svo miklu leyti sem það stangast ekki á við trúnað gagnvart öðrum.
Vinnsla mála og varðveisla gagna byggist á lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018 og lögum um opinber skjalasöfn nr. 77/2014.
22. gr.
Leiðbeiningar til umsækjanda
Við afgreiðslu umsóknar skal starfsfólk félagsþjónustu/velferðarþjónustu lögheimilis sveitarfélags bjóða umsækjanda ráðgjöf ef þörf er á og veita upplýsingar og leiðbeiningar um réttindi sem hann kann að eiga annars staðar. Þá skal starfsfólk einnig upplýsa umsækjanda um þær skyldur sem kunna að hvíla á honum vegna framkvæmdar samkvæmt reglum þessum.
Sérstaklega skal gætt að frumkvæðisskyldu hvað varðar þjónustu við fatlað fólk, sbr. 32. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
23. gr.
Heimildir til ákvarðana samkvæmt reglum þessum
Þjónusturáð Bergrisans tekur ákvarðanir um þjónustu byggða á reglum þessum sem öðlast gildi með samþykki stjórnar Bergrisans bs.
24. gr.
Niðurstaða og rökstuðningur synjunar
Kynna skal niðurstöðu á afgreiðslu umsóknar með skriflegum hætti svo fljótt sem unnt er. Sé umsókn synjað skal umsækjandi fá skriflegt svar þar sem vísað er með skýrum hætti til viðeigandi ákvæða reglna þessara og leiðbeint um heimild til að óska rökstuðnings fyrir synjun.
25. gr.
Málskot til úrskurðarnefndar velferðarmála
Ákvörðun þjónusturáðs Bergrisans bs. skal kynnt umsækjanda skriflega og samhliða kynntur réttur hans til að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar velferðarmála. Umsækjandi getur kært synjun þjónusturáðs Bergrisans bs. til úrskurðarnefndar velferðarmála. Skal það gert innan þriggja mánaða frá því að umsækjanda var kunngerð ákvörðun þjónusturáðs Bergrisans bs.
26. gr.
Gildistaka
Staðfest á xx. fundi stjórnar Bergrisans bs. þann xxx 2024. Reglur þessar öðlast gildi við birtingu í Stjórnartíðindum.