- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Björgunarsveitin Dagrenning heldur úti öflugu unglingastarfi og er unglingadeildin Ýmir mjög virk. Í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru í þjóðfélaginu var björgunarsveitarhúsinu lokað og starfsemi unglingadeildarinnar hætt um óákveðinn tíma. Þau Snædís Sól Böðvarsdóttir, Karítas Björg Tryggvadóttir og Bjarki Hafberg Björgvinsson, sem hafa haft umsjón með unglingadeildinni, fundu svo til með þessum duglegu krökkum að þau útbjuggu hina stórskemmtilegu Samkomubannsleika 2020.
Leikurinn var í ratleikjaformi og byggður þannig upp að krakkarnir söfnuðu stigum í 4 vikur. Þátttakendur fengu stig fyrir að fara í fjallgöngur, göngur, leiðangra, hellaleit og annað skemmtilegt. Þau þurftu að sækja ákveðið forrita til að mæla vegalengd, hæð og tíma. Til að virkja fleiri með voru bónusstig veitt fyrir alla þá vini og fjölskyldumeðlimi sem komu með og líka fyrir skemmtilega og frumlega mynd. Þau þurftu aðeins að hafa fyrir því að safna stigum með því að taka mynd, skrá niður þá leið sem farin var, pæla aðeins í stað og stund og njóta útiverunar. Þau Snædís, Karítas og Bjarki voru virkilega ánægð yfir því hversu dugleg krakkarnir voru að safna stigum og gaman að sjá hvað þau náðu að draga vini og fjölskyldu með í ævintýri.
Verðlaun voru fyrir þrjú efstu sætin og Gangleri Outfiters og Nova fá kærar þakkir fyrir vinningana.
Meðfylgjandi forsíðumynd er tekin í Reynisfjöru (Ý fyrir Ými)