- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Á fundi stjórnar Tónlistarskóla Rangæinga 22. maí var tekin ákvörðun um ráðningu í starf skólastjóra Tónlistarskóla Rangæinga sem auglýst var á dögunum. Niðurstaðan var að ráða Söndru Rún Jónsdóttur í starfið og mun hún hefja störf frá og með 1. ágúst 2020.
Sandra Rún Jónsdóttir er 26 ára og er með bakkalár gráðu frá Listaháskóla Íslands í skapandi tónlistarmiðlun auk meistaragráðu frá Barklee Collage of Music (Global Entertainment and Music Business). Hún starfar nú sem skóla- og hljómsveitarstjóri hjá Skólahljómsveit Austurbæjar en hefur einnig sinnt tónlistarkennslu við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Tónlistarskólann í Garði auk þess að starfa sem deildarfulltrúi við Tónlistardeild Listaháskóla Íslands. Hún stundaði tónlistarnám frá barnsaldri og leikur á blásturshljóðfæri. Hún hefur tekið þátt í Lúðrasveitarstarfi, spilað með Léttsveit og starfað með Bjöllukór Tónlistarskólans í Reykjanesbæ. Þá hefur Sandra Rún tekið virkan þátt í margvíslegu kóra- og leikhússtarfi.
Í greinargerð með ákvörðuninni segir: Starfið var auglýst í Morgunblaðinu, Fréttablaðinu, Dagskránni, Búkollu og á heimasíðum aðildarsveitarfélaga skólans í apríl 2020 með umsóknarfrest til 15. apríl 2020. Umsækjendur voru 8 talsins. Umsóknir voru flokkaðar með tilliti til þess hversu vel umsækjendur uppfylltu menntunar- og hæfniskröfur og ljóst að mjög góðar umsóknir lágu fyrir. Í auglýsingu um starfið var tekið fram að leitað væri eftir skólastjóra við Tónlistarskóla Rangæinga bs en helstu verkefni og ábyrgðarsvið hans eru stjórnun og ábyrgð á rekstri skólans og daglegri starfsemi auk þess að veita faglega forystu á sviði kennslu og þróunar í skólastarfi. Hvað varðar menntunar og hæfniskröfur þá var gert ráð fyrir framhaldsmenntun á sviði tónlistar auk reynslu af tónlistarkennslu og tónlistarflutningi. Auk þess var sett skilyrði um að viðkomandi hefði þekkingu og reynslu af stjórnun og rekstri. Önnur atriði sem lögð voru til grundvallar voru m.a. leiðtogahæfileikar og færni í mannlegum samskiptum.
Eftir yfirferð og kynningu umsókna á Zoom fundi í stjórn skólans þann 24. apríl 2020 var ákveðið að bjóða öllum 8 umsækjendum til viðtals þann 29-30 apríl 2020. Viðtölin tóku Ágúst Sigurðsson, Anton Kári Halldórsson og Brynja Jóna Jónasdóttir. Umsækjendur mættu til viðtals með Zoom fjarfundabúnaði og hvert viðtal tók allt að 1 klst. Í kjölfar samtala var Ágústi og Antoni Kára falið að hafa sambandi við samstarfsaðila úr fyrri störfum. Stjórnin hittist aftur á Zoom-fundi þann 4 maí 2020 og fór yfir stöðu málsins og var þá ákveðið að bjóða þeim þremur umsækjendum sem hæfust þóttu til starfans aftur til viðtals. Þau viðtöl fóru fram þriðjudaginn 19. maí í húsnæði Tónlistarskólans á Hvolsvelli og tóku sömu aðilar þau viðtöl og áður. Við sama tækifæri var hverjum og einum hinna þriggja umsækjenda boðið að hitta starfsfólk á sérstökum starfsmannafundi og kynna sig og svara spurningum starfsfólks varðandi áherslur og framtíðarsýn fyrir skólann. Að afloknum viðtölum og kynningum áttu stjórnarmenn Tónlistarskólans samtöl við Sigurgeir Guðmundsson fráfarandi skólastjóra og Guðjón Halldór Óskarsson áheyrnarfulltrúa starfsmanna í stjórn skólans. Að þessu loknu áttu stjórnarmenn fund til að komast að sameiginlegri niðurstöðu um hvaða umsækjandi þætti hæfastur til að gegna starfinu. Það var samdóma álit þeirra sem viðtölin tóku að hæfust til að gegna starfinu væri Sandra Rún Jónsdóttir. Samstarfsaðilar úr núverandi og fyrri störfum gáfu henni mjög góða umsögn og mæltu eindregið með að hún yrði ráðin til að gegna starfinu.