- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Ný frístunda- og viðburðasíða auðveldar lífið á Suðurlandi – sudurlif.is
Fimm sveitarfélög sameina krafta sína með nýrri vefsíðu
Íbúar í Rangárþingi ytra, Rangárþingi eystra, Ásahreppi, Mýrdalshreppi og Skaftárhreppi geta nú fagnað tilkomu nýrrar sameiginlegrar frístunda- og viðburðasíðu sem ber nafnið Suðurlíf. Síðunni er ætlað að sameina alla viðburði og frístundir í sveitarfélögunum á einn stað til að einfalda íbúum að finna viðburði, íþróttastarf og aðrar frístundir sem standa til boða.
Öllum íbúum er frjálst að skrá viðburði beint á síðuna með því að smella á „Skrá viðburð“ og fylla út einfalt eyðublað, þar sem hægt er m.a. að setja inn hlekki um skráningu eða nánari upplýsingar.
Hægt er að flokka viðburði og frístundir eftir sveitarfélögum og aldri, sem gerir leitina enn einfaldari. Þess má geta að enn er verið að setja inn upplýsingar á síðuna en áætlað er að allt efni verði komið á síðuna ekki seinna en í byrjun október. Þó er því ekkert til fyrirstöðu að byrja að skrá viðburði sem fram undan eru og skoða hvað um er að vera í sveitarfélögunum.
„Við hvetjum öll sem standa að viðburðum að skrá þá á síðuna,“ segir Sigurmundur Páll Jónsson, markaðs- og kynningafulltrúi Rangárþings eystra. „Markmiðið er að einfalda allt upplýsingaflæði þegar kemur að viðburðum og frístundum á svæðinu.“
Mikilvægt er að taka fram að þessi nýja síða kemur ekki í stað annarra lausna eins og Abler, viðburða á Facebook eða annarra skráningarsíðna. Hún er ætluð sem viðbót og miðstöð upplýsinga þar sem allt er að finna á sama stað.
Unnið er að því að bæta inn upplýsingum á síðuna af hálfu sveitarfélagana næstu daga.
Ef þú stendur að reglulegu íþróttastarfi eða frístundum sem flokkast ekki undir einstaka viðburði geturðu sent upplýsingar um starfið á Sigurmund, markaðs- og kynningafulltrúa á simmi@hvolsvollur.is eða Ólaf Örn Oddsson, forstöðumann og yfirmaður íþrótta- og æskulýðsmála á olafurorn@hvolsvollur.is
Um samstarfið:
Nokkrir fulltrúar sveitarfélaganna sem eru þátttakendur í verkefninu „Heilsueflandi samfélag“ tóku þátt í vinnustofu þar sem ein kynningin snérist um vefsíðuna frístundir.is sem sveitarfélögin á Reykjanesi halda úti. Var hópurinn sammála að þetta gæti verið einföld og sniðug lausn þar sem sveitarfélögin gætu sameinað krafta sína. Á seinni stigum var ákveðið að bæta við viðburðardagatali á síðuna til að geta nýtt þetta sem einhvers konar miðstöð upplýsinga til íbúa. Nánara samtal var tekið við fulltrúa sveitarfélaganna á Reykjanesinu þar sem fram kom að þessi lausn hefði umbylt upplýsingaflæði til íbúa og væri orðin einhvers konar fasti þegar velja ætti íþrótta- og frístundastarf fyrir börn og fullorðna.
Í framhaldinu hafa samtöl átt sér stað við fulltrúa íþróttafélaganna og fulltrúa eldri borgara í sveitarfélögunum þar sem ljóst var að svona síða myndi bæta þeirra starf töluvert. Þó að sveitarfélögin sjálf standi að þessari síðu er ekki síður mikilvægt að almenningur og þau sem standa að viðburðum og íþrótta- og frístundastarfi séu virkir þátttakendur í verkefninu til síðan þjóni tilgangi sínum sem best.
Skoðaðu og skráðu viðburði á sudurlif.is
Ertu með spurningar? Hafðu samband:
Sigurmundur Páll Jónsson – simmi@hvolsvollur.is - 488 4200
Ólaf Örn Oddsson, forstöðumann og yfirmaður íþrótta- og æskulýðsmála á olafurorn@hvolsvollur.is - 488 4297