Málefni heilsugæslu Rangárþings hafa verið til mikillar umræðu undanfarin misseri vegna vanda við að manna stöður lækna í héraðinu. Sú staða hefur reglulega komið upp að enginn læknir sé á vakt á stóru svæði á Suðurlandi. Þetta hefur skapað aukið álag á annað heilbrigðisstarfsfólk og óöryggi fyrir íbúa og þann gríðarlega fjölda ferðamanna sem fer um svæðið.

Fulltrúar Rangárþings ytra, Rangárþings eystra og Ásahrepps hafa fundað með forstjóra og framkvæmdastjóra hjúkrunar og heilsugæslu HSU til að fara yfir málin og leita skýringa og lausna á stöðunni. Á þeim fundi kom meðal annars fram að grunnlæknisþjónusta í sýslunni sé tryggð út febrúar 2025. Sá tími verður nýttur til þess að auglýsa og ráða lækna í fastar stöður. Fram kom að til skoðunar er hjá heilbrigðisráðuneytinu einhvers konar ívilnanir til að laða að heilbrigðisstarfsfólk út á land og hvetja sveitarstjórnir svæðisins til að því máli verði hraðað eins og kostur er. Sveitarfélögin í Rangárvallasýslu leggja áherslu á að þau séu hér eftir sem hingað til tilbúin að liðka til fyrir ráðningarferlinu eins og þeim er heimilt.

Sveitarfélögin lýsa yfir verulegum áhyggjum af stöðunni og ítreka að núverandi staða og óvissa sé óboðleg 4519 íbúum sýslunnar og öðrum gestum hennar. Stöðufundur verður haldinn í febrúar með HSU og send verður sameiginleg ályktun sveitarfélaganna í Rangárvallasýslu til heilbrigðisráðuneytisins.

Ljóst er að þessi staða hefur valdið verulega auknu álagi á annað starfsfólk heilsugæslunnar og á sjúkraflutningafólk. Vilja fulltrúar sveitarfélaganna koma á framfæri sérstökum þökkum til þeirra sem staðið hafa vaktina og sinnt framúrskarandi starfi af einstakri elju og sóma.

Von kjörinna fulltrúa og íbúa Rangárvallasýslu er að málin leysist sem fyrst og að viðunandi læknisþjónusta verði tryggð til frambúðar.