- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Gömlu myndirnar frá Hvolsvelli
Afmælishátíð í tilefni af 90 ára afmæli þéttbýlisins Hvolsvallar var haldin í Valhalla/Sögusetrinu í gær, sunnudaginn 5. nóvember. Hátíðin var virkilega vel sótt og var nánast full út úr dyrum. Dagskráin var samansett af skemmtilegum erindum og tónlistarflutningi frá Tónlistarskóla Rangæinga. Það var Markaðs- og menningarnefnd Rangárþings eystra sem stóð að hátíðinni og færir nefndin öllum þeim sem tóku þátt góðar þakkir.
Christiane Bahner, formaður markaðs- og menningarnefndar, stýrði hátíðinni af miklum myndarbrag. Guri Hilstad Ólason, nefndarmaður í markaðs- og menningarnefnd og í sveitarstjórn, færði gestum kveðju frá sveitarstjórn og sagði í nokkrum orðum frá upplifun sinni af því að flytja á Hvolsvöll fyrir 16 árum síðan. Guri, sem er norsk að uppruna, sagði að það hefði verið tekið einstaklega vel á móti fjölskyldunni hennar á Hvolsvelli og í sveitarfélaginu öllu.
Tónlistarskóli Rangæinga lagði til tvö tónlistaratriði í dagskrána. Hafdís Auður Sigurðardóttir, 7 ára, spilaði á píanó af miklu öryggi og Dóróthea Oddsdóttir söng Vikivaka en söngkennarinn hennar, Aðalheiður Margrét, spilaði undir á píanó. Það má nefna að Dóróthea býr einmitt í elsta húsinu á Hvolsvelli, Gamla kaupfélaginu.
Ísólfur Gylfi Pálmason, fyrrum sveitarstjóri, flutti afar skemmtilegt erindi þar sem hann sagði frá því hvernig þorpið myndaðist og hvernig þróunin hefur verið. Erindið var virkilega skemmtilegt og líflegt og nokkrir 8 og 9 ára gestir á hátíðinni voru alveg hlessa á því að hlutirnir hafi verið svona á Hvolsvelli eins og Ísólfur Gylfi lýsti. Það vildi svo skemmtilega til að fyrsta barnið sem fæddist á Hvolsvelli, Birgir Ísleifsson, var einmitt meðal gesta á hátíðinni en hann fæddist árið 1937.
Árný Lára Karvelsdóttir, markaðs- og kynningarfulltrúi, sagði frá markaðsherferð sveitarfélagsins þar sem markmiðið er að bjóða bæði nýja íbúa og gesti velkomna. Yfirskrift herferðarinnar hefur frá upphafi verið Velkomin heim og hefur tekist vel til sem má með sanni sjá í þeirri uppbyggingu sem á sér stað í íbúðarhúsnæði á Hvolsvelli.
Í lok dagskrár stóðu gestir upp og sungu afmælissöngin fyrir Hvolsvöll en Aðalheiður Margrét Gunnarsdóttir, tónlistarkennari, sá um undirspil.
Úlfar Þór Gunnarsson, vert á Valhalla, og starfsfólk hans buðu upp á veglegt kökuhlaðborð og að sjálfsögðu var afmælisterta í tilefni dagsins.
Héraðskjalasafn Árnesinga lánaði ljósmyndir til sýningar á afmælishátíðinni en þessar myndir og margar fleiri frá Hvolsvelli má finna á myndasetur.is. Einnig voru myndir sýndar sem fengnar voru á facebook síðunni Myndir frá Hvolsvelli. Þar er að finna aragrúa af myndum af húsum og fólki sem tengist Hvolsvelli.