Kæru íbúar Rangárþings eystra

Þann 31. júlí sl. voru settar á hertari sóttvarnarreglur vegna fjölgunar smita á covid-19 í samfélaginu. Vegna þessa vill Rangárþing eystra og þau fyrirtæki sem eru með aðstöðu í húsnæði sveitarfélagsins að Austurvegi 4, beina þeim tilmælum til íbúa að heimsóknir á skrifstofurnar verði í algeru lágmarki og almenningur komi ekki nema að brýn nauðsyn sé fyrir heimsókn.

Við bendum á að lang flest erindi er hægt að afgreiða með símtali, tölvupósti eða fjarfundi. Gott er að nota Íbúagátt sveitarfélagsins sem er rafrænn aðgangur að viðskiptaupplýsingum milli einstaklinga og sveitarfélagsins. Íbúagáttina má finna hér.

Þessi tilmæli eiga við um allar stofnanir og þjónustueiningar sem heyra undir sveitarfélagið.

Nú þegar hafa bæði Kirkjuhvoll, Leikskólinn Örk og Íþróttamiðstöðin uppfært sínar reglur: 

Kirkjuhvoll

Reyna að takmarka heimsóknir til heimilisfólks við einn eða tvo aðstandendur í einu og halda til í herbergi heimilismanns meðan á heimsókn stendur.

Handþvottur skiptir miklu máli í sóttvörnum og um leið og komið er inn á Kirkjuhvol er nauðsynlegt að þvo sér um hendur og/eða nota handspritt.

Leikskólinn Örk

Óskað er eftir að aðeins nánasta fjölskylda, þ.e. foreldrar og systkini eldri en 12 ára, komi með börn og sæki þau. Viðhalda þarf tillitssemi í fataklefanum þar sem ekki er hægt að halda 2 metra fjarlægð og er fólk beðið um að passa að ekki séu fleiri foreldrar en frá 2 börnum í einu í fataklefanum og aðeins annað foreldrið mæti með barninu. Nauðsynlegt er að muna að spritta hendur þegar komið er með börnin og þegar þau eru sótt.

Íþróttamiðstöðin

Fjöldatakmörkun gildir í íþróttamiðstöðinni á Hvolsvelli, fjöldi er takmarkaður við 28 manns í sundi og 8 í líkamsræktinni. Vinsamleg tilmæli eru að gestir takmarki tíma í sundi og líkamsrækt svo fleiri fái að njóta. Í sauna er miðað við að mest séu 3 einstaklingar í einu.

Með kærri kveðju 

Lilja Einarsdóttir

Sveitarstjóri Rangárþings eystra