Trjágróður á lóðamörkum

Byggingarfulltrúi Rangárþings eystra vill góðfúslega minna íbúa sveitarfélagsins á að snyrta þarf trjágróður á lóðamörkum. Trjágróður sem vex út fyrir lóðamörk getur skapað óþægindi og jafnvel hættu fyrir gangandi og akandi vegfarendur. Eftirfarandi atriði þarf að hafa í huga vegna trjágróðurs á lóðamörkum:

  • Að umferðarmerki séu sýnileg.
  • Að gróður byrgi ekki götulýsingu.
  • Að gangandi og hjólandi vegfarendur eigi greiða leið um gangstíga.
  • Þar sem vélsópar og snjóruðningstæki fara um má lágmarkshæð gróðurs yfir stígum ekki vera lægri en 2,8 metrar.
  • Yfir akbrautum má gróður ekki slúta niður fyrir 4,2 metra og gildir þessi hæðarregla einnig þar sem sorphirðubílar, slökkvilið og sjúkrabílar þurfa að komast eftir stétt eða stíg.

Lóðarhafar bera ábyrgð á gróðri innan lóðamarka

Samkvæmt byggingarreglugerð 112/2012, gr. 7.2.2, eru þær skyldur settar á lóðarhafa/garðeiganda að halda vexti trjá eða runna innan lóðarmarka. Þar segir jafnframt:  ,,Sinni hann því ekki og þar sem vöxtur trjáa eða runna fer út fyrir lóðarmörk við götu, gangstíga eða opin svæði er veghaldara eða umráðamanni svæðis heimilt að fjarlægja þann hluta er truflun eða óprýði veldur, á kostnað lóðarhafa að undangenginni aðvörun”.

 

Guðmundur Úlfar Gíslason
Skipulags- og byggingarfulltrúi