Umhverfisverðlaun Rangárþings eystra 2021 hafa nú verið afhent. Það er Umhverfis- og náttúruverndarnefnd Rangárþings eystra sem að heldur utan um tilnefningar og tekur síðan ákvörðun um verðlaunahafa.

Veitt eru verðlaun í þremur flokkum:

Snyrtilegasta býlið í Rangárþingi eystra 2021: Smáratún

 

Ábúendur eru hjónin Ívar Þormarsson og Arndís Soffía Sigurðardóttir ásamt börnum sínum, Emmu Eir, Elfari Agli og Eldey. Í Smáratúni býr einnig faðir Arndísar, Sigurður Eggertsson, sem byggði upp landbúnaðinn sem nú er stundaður þar og lagði einnig grunninn að ferðaþjónustunni sem þau Ívar og Arndís Soffía hafa nú rekið með miklum myndarbrag til fjölda ára. Allt nærumhverfið í Smáratúni er til mikillar fyrirmyndar, hvort sem það á við lögbýlið sjálft eða ferðaþjónustuna.

Snyrtilegasta fyrirtækið í Rangárþingi eystra: Spói guesthús

 

Allar götur síðan þau Gunnhildur E. Kristjánsdóttir og Ágúst Kristjánsson opnuðu gistihúsið Spóa á heimili sínu að Hlíðarvegi 15 á Hvolsvelli hefur mikil snyrtimennska einkennt svæðið og mikill metnaður lagður í þá vinnu. Gestir þeirra Gunnhildar og Ágústar geta notið þess að sitja úti í stórum garðinum þar sem blóm og tré eru í mikill grósku.

Snyrtilegasti garðurinn í Rangárþingi eystra: Litlagerði 17

 

Í Litlagerði 17 búa þau Guðlaug Oddgeirsdóttir og Sigurður Sigurðsson. Garðurinn þeirra er afar snyrtilegur og fallegur og ljóst að mikil vinna hefur verið lögð í að halda honum við. Guðlaug hafði það einmitt á orði þegar hún var innt eftir hvort að það væri ekki mikil vinna að halda úti svona stórum garði og af þessum myndarbrag að jú það væri það nú en þeim þætti þetta bara svo gaman og það sést í hverju horni garðsins.

Rangárþing eystra óskar öllum verðlaunahöfum innilega til hamingju.