- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Valborg Ólafsdóttir í Holti undir Eyjafjöllum er Sveitarlistamaður Rangárþings eystra 2021.
Í umsögn Menningarnefndar Rangárþings eystra segir að Valborg Ólafsdóttir hljóti þessa útnefningu fyrir frumlega tónlistar- og textagerð, tónlistarsköpun og lifandi flutning í sveitarfélaginu sem og annars staðar. Valborg er einnig tónlistarkennari við Tónlistarskóla Rangæinga og tekur því þátt í að miðla sinni reynslu og þekkingu til yngri kynslóðarinnar.
Valborg hefur í áraraðir verið duglega að semja og spila sína eigin tónlist og komið fram víða, bæði hér heima í héraði sem og erlendis. Önnur plata Valborgar, Silhouette, kom út núna í sumar en fyrri platan, Valborg Ólafs, kom út árið 2019 og vakti mikla og góða athygli. Orri, maður Valborgar, spilar með henni í hljómsveit hennar ásamt þeim Baldvin Frey Þorsteinssyni og Elvari Braga Kristjánssyni. Ásamt því að vera tónlistarkona og bóndi þá hafa þau hjón verið með ferðaþjónustu í nokkur ár og þar lætur Valborg ljós sitt skína og fá gestir hennar oft að njóta heimilislegra tónleika í stofunni.
Valborg er virkilega vel að þessari nafnbót komin og óskum við henni hjartanlega til hamingju.
Harpa Mjöll Kjartansdóttir, formaður Menningarnefndar afhenti Valborgu viðurkenningarskjal og blómvönd að þessu tilefni.
Sveitarlistamaður Rangárþings eystra er nú valinn í 8. sinn. Auglýst var eftir tilnefningum frá íbúum og fjölmargar bárust sem Menningarnefnd þakkar kærlega fyrir.