- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Þann 26. nóvember sl. var haldinn menningarhátíð í Hvolnum en þar kynntu íbúar frá Póllandi og Búlgaríu, menningu sína og hefðir ásamt því að stiklað var á stóru yfir hefðir á Íslandi.
Dagskráin var einstaklega skemmtileg, fluttur var pólski þjóðsöngurinn, börn og foreldrar þeirra sungu vísur og spilaður var lagstúfur á píanó. Farið var m.a. yfir sögu Póllands í máli og myndum og prófað úr sögunni í Kahoot spurningaleik. Hópur fólks kom og dansaði búlgarska þjóðdansa, farið var yfir viðburði í sögu Búlgaríu og margt fleira. Sendiherra Póllands kom og flutti erindi sem og Tómas Birgir Magnússon, oddviti Rangárþings eystra.
Búið var að undirbúa hlaðið veisluborð með dýrindis kræsingum frá Póllandi og Búlgaríu. Einnig bauð SS upp á smakk á þjóðlegum réttum frá Íslandi. Eftir dagskrána var boðið upp á andlitsmálningu og barnahorn.
Fullt var út úr dyrum og mikil ánægja var með daginn hjá þeim sem sóttu. Hópurinn sem kom að undirbúningi hátíðarinnar fær kærar þakkir fyrir og vonandi er menningarhátíð sem þessi komin til að vera.
Meðfylgjandi myndir tók Wojciech Piotrowicz og hér má sjá fleiri myndir.