„Sá ég ei fyrr svo fagran jarðargróða,
fénaður dreifir sér um græna haga,
við bleikan akur rósin blikar rjóða.
Hér vil eg una ævi minnar daga
alla, sem guð mér sendir. Farðu vel,
bróðir og vinur! - Svo er Gunnars saga.“

Svo mælir kempan Gunnar á Hlíðarenda við Kolskegg bróður sinn þegar þeir bræður voru á leið úr landi í ljóðinu Gunnarshólma eftir Jónas Hallgrímsson. Gunnar snýr aftur heim, getur ekki kvatt hina fögru Fljótshlíð og mætir því örlögum sínum sem allir þekkja.

Þegar ég var nú um daginn að lesa þetta ljóð þá uppgötvaði ég dálítið merkilegt. Ég upplifið ljóðið á alveg nýjan hátt. Hvers vegna? Jú, ég  er að kynnast Njálssögu á nýjan hátt. Ég tek þátt í því ásamt heimamönnum og fjölda  íslenskra og erlendra ferðamanna að sauma söguna á refil að fornum sið. Ég er að sauma mig inní söguna, því um leið og við saumum kynnumst við persónum Njálssögu og lærum hana alveg utanað, eða ég held að svo muni verða. Og ekki bara það, þarna skapast einstakt tækifæri til að blanda geði við ferðfólk og kynnast fólki hvaðan æfa að úr heiminum. Ég hef líka hitt marga gamla vini og skólasystkini og það er mjög skemmtilegt og gefandi. Þetta er einstakur vettvangur í menningatengdri ferðaþjónustu þar sem heimafólk og ferðamenn vinna að sameiginlegu verkefni. Nú hafa yfir 3000 saumarar ritað nafn sitt í gestabókina, sumir auðvitað oftar en einu sinni. Margir heimamenn eiga fasta saumatíma við refilinn og sauma sínar uppáhalds hetjur. Og þannig lifna þær við í sinni okkar og við förum að skilja söguna á nýjan hátt og allt það sem ort hefur verið og skrifað um hana. Og það er svo merkilegt að með þessu viðhelst gamalt handverk og áhugi ungafólksins er ekki minni en hinna sem eldri eru. Yngstu saumararnir eru á sjöunda ári og þeir elstu á tíræðisaldri.

Njálurefillinn er verkefni sem tvær sómakonur, þær Gunnhildur Edda Kristjánsdóttir og Christina MargaretaBengtsson, hafa haft frumkvæði að og hafa þær notið aðstoðar sveitarfélagsins og ýmissa styrktaraðila. Nú er ár síðan saumaskapurinn hófst og búið er að sauma hátt í 20 metra. Það er reiknað með að í byrjun apríl verði fyrsta hluta verkefnisins lokið og þá verður hægt að koma í Sögusetrið á Hvolsvelli og líta dýrðina augum. Njálurefillinn verður lengsti refill í heimi um 90 metra langur þegar öll sagan hefur verið saumuð. Þá má gera ráð fyrir að aðdráttarafl refilsins verði í samræmi við lengd hans. Njálurefillinn verður eign Rangárþings eystra þegar hann verður fullbúinn. Það er listakonan og hönnuðurinn Kristín Ragna Gunnarsdóttir sem teiknar söguna.

Að sauma sig inní söguna er skemmtileg og einstök upplifun.Og að búa einmitt á þeim stað þar sem þungamiðja sögunnar er, er einstakt. Þó eitt og annað hafi breyst í tímans rás er landið enn hið sama og örnefnin hafa varðveist og þegar við lesum Njálssögu og Gunnarshólma finnum við þessa sterku tengingu við söguna og landið.

Ég vil hvetja alla sem vilja upplifa Njálu og umhverfi hennar og sjá hvernig hægt er að skapa sameiginlega afþreyingu fyrir ferðamenn og heimamenn, að koma í heimsókn í refilstofuna í Sögusetrinu á Hvolsvelli. Og ekki sakar að fá um leið tilsögn í miðaldasaumaskap.

 „...Sólroðin líta enn hin öldnu fjöll
árstrauminn harða fögrum dali granda.
Flúinn er dvergur, dáin hamratröll,
dauft er í sveitum, hnípin þjóð í vanda.
En lágum hlífir hulinn verndarkraftur,
hólmanum, þar sem Gunnar sneri aftur.“

Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir, íbúi á Njáluslóðum.

Þessi grein er úr Dagskránni og má finna hér