Sveitarstjórn Rangárþings eystra fagnar þeirri ákvörðun innanríkisráðherra að höfuðstöðvar lögreglustjóraembættisins á Suðurlandi verði á Hvolsvelli. Hvolsvöllur er miðsvæðis á Suðurlandi og því er byggðalagið vel í sveit sett.
Sveitarstjórnin mælir einnig eindregið með því að Kjartan Þorkelsson, sýslumaður, verði lögreglustjóri í þessu nýja umdæmi. Ástæðan er m.a. sú að Kjartan Þorkelsson og starfsmenn embættis hans hafa byggt upp öflugar almannavarnir í samvinnu við viðbragðsaðila og íbúa umdæmis lögreglustjórans á Hvolsvelli. Reyndi verulega á skipulagningu þessara mála í þeim stóru áföllum sem hér urðu á síðustu árum í eldgosunum í Eyjafjallajökli 2010 og Grímsvötnum 2011 svo og við stórflóð í Múlakvísl 2012, sem sýndu svo ekki verður um villst mikilvægi þess að hafa öflugt fólk með víðtæka reynslu á þessu sviði við stjórnvölinn þegar á reynir. Þá hefur Kjartan og hans fólk verið ötult við að byggja upp og styrkja sameinað lögregluembætti í Rangárvallasýslu og Vestur – Skaftafellssýslu.