Grein af www.sunnlenska.is

Árið 1973 gerði kvenfélagið Eining könnun í Hvolhreppi, þar sem þörf fyrir gæslu barna á aldrinum tveggja til sex ára var könnuð.

Í framhaldinu var samþykkt að setja á stofn sumargæslu en Kvenfélagið Eining studdi reksturinn í upphafi með myndarlegum fjárframlögum, bæði til kaupa á húsgögnum og leikföngum. Tímarnir breytast og í dag er Leikskólinn Örk ekki það gæsluúrræði sem lagt var að stað með í upphafi heldur fagleg menntastofnun og viðurkenndur sem fyrsta skólastigið. 

Í nýrri aðalnámskrá leik- og grunnskóla 2011 eru sex grunnþættir lagðir til grundvallar skólastarfi; læsi, sjálfbærni, jafnrétti, sköpun, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi.

Í aðalnámskránni er lögð áhersla á að skólastarf skuli vera í sífelldri þróun. Til að framþróun geti átt sér stað þarf að taka tillit til sjónarmiða nemendanna og þeir þurfa að vera virkir þátttakendur í að umskapa og umskrifa heiminn. Þannig öðlast þeir nýja merkingarbæra og persónulega þekkingu sem þeir hafa sjálfir tekið þátt í að skapa. Þegar rýnt er í námskránna má sjá að t.d. læsi snýst að hluta til um tæknimiðla og verkkunnáttu enda hefur umhverfi ritunar og læsis færst í annað umhverfi frá því sem áður var, þar sem að tölvur og tæknimiðlar skipa stóran sess.

Með notkun á spjaldtölvum í skólastarfi erum við að taka þátt í því sem er að gerast í dag og miða að því að útskrifa nemendur sem geta verið virkir þátttakendur í samfélagi sem er í sífelldri þróun.  

Kvenfélagið Eining reynist okkur enn vel – 40 árum seinna – er ætlun þeirra að leggja hönd á plóg við að tæknivæða leikskólann og færa honum að gjöf spjaldtölvur. Ötular kvenfélagskonur skipuleggja nú Góugleði-Hippaball sem haldið verður í Hvoli þann 22. mars næstkomandi og mun ágóði þess renna í verkefnið. 

Nemendur leikskólans taka þátt í þessu verkefni og gerðu á dögunum ansi skemmtilega auglýsingu fyrir gleðina. Þetta er þeirra framlag í þessa fjáröflun. Klæddust þau fatnaði sem minnir hippatímann og sungu lagið Blikandi stjörnur. Það er von okkar kennara að þátttaka þeirra í þessu verkefni  auki verðmætamat barnanna og kenni þeim að nauðsynlegt sé að fara vel með þessi tæki þegar þau komast í notkun.

Ást og friður
Erla Berglind Sigurðardóttir
Leikskólakennari 
Leikskólanum Örk
Hvolsvelli