- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Kæru gestir kjötsúpuhátíðar
Kjötsúpunefnd þakkar kærlega fyrir skemmtilega og velheppnaða hátíð um sl. helgi.
Mikill metnaður var strax um miðja síðustu viku í hverri götu að skreyta í lit götunnar og mátti sjá hinar ýmsu fígúrur og útfærslur spretta upp. Hvolsvöllur varð því ansi litríkur meðan á Kjötsúpuhátíð stóð. Dómnefnd valdi þrjár bestu ljósaskreytingarnar og svo best skreyttustu götuna- heildarútlit. Í 1. sæti voru Pálína og Birgir í Litlagerði 2a, í 2. sæti voru Kári og Kristín í Króktúni 13 og í 3. sæti Sigurjón og Guðlaug í Njálsgerði 12. Best skreyttasta gatan þótti svo Litlagerðið en það var gul gata. Rafverkstæði Ragnars gaf þeim eru lentu í 1. sæti í ljósaskreytingakeppninni, glæsilega Expresso kaffivél og fá þau Ragnar og Árný kærar þakkir fyrir. Nú hafa íbúar heilt ár til að skipuleggja skreytingar í lit götunnar fyrir næstu hátíð og verður gaman að sjá hvort sami metnaður verður ekki til staðar og í ár.
Súpuröltið var stórskemmtilegt að vanda og öllum þeim sem buðu upp á súpu eru færðar bestu þakkir. Dagskrá laugardagsins tókst með eindæmum vel og var gaman að sjá hversu margir lögðu leið sína á miðbæjarsvæðið til að njóta góðrar dagskrár og gæða sér á súpu. Það var SS sem bauð gestum upp á súpu og í þetta sinn var bæði hægt að fá íslenska og pólska kjötsúpu. Veltibíllinn var á staðnum í boði TM og ekki var annað að sjá en börn og fullorðnir hefðu gaman af að veltast um í bílnum. Hrepparígurinn í ár var Kvenfélagsrígur og voru það keppniskonur úr Kvenfélaginu Bergþóru í V-Landeyjum sem voru sigurvegarar. Þær hlutu 25.000 kr. peningaverðlaun frá VÍS í sjóð kvenfélagsins. Kveikt var í brennunni á laugardagskvöldið og mættu margir með hin ýmsu hljóðfæri og héldu uppi stemningu. Kjötsúpuballið var svo í Hvolnum en það voru Ingó og Veðurguðirnir sem þar spiluðu.
Kjötsúpunefnd þakkar öllum þeim sem tóku þátt í kjötsúpuhátíð og hjálpuðu til á einn eða annan hátt.