Nýlega fluttu fyrstu starfsmenn SS á Hvolsvelli inn í nýjar leiguíbúðir sem fyrirtækið hefur byggt við Gunnarsgerði á Hvolsvelli.
Af því tilefni heimsótti Benedikt Benediktsson, framleiðslustjóri SS þau Grzegorz Ziolkowski og Justina Ziolkowska sem eru fyrstu íbúar í hinu nýja húsnæði og færði þeim blómvönd frá fyrirtækinu.
Um er að ræða fyrstu 8 íbúðirnar af 24 sem félagið reisir á Hvolsvelli. Hver íbúð er um 50 fermetrar að stærð með einu svefnherbergi, baðherbergi, eldhúskrók og setustofu, auk geymslu. Einnig er útigeymsla við hvert hús. Húsin eru léttbyggð með steyptum milliveggjum, útveggir eru úr timbri klæddir með lituðu bárujárni. Íbúðirnar eru afhentar fullbúnar utan- og innahúss, með frágenginni lóð og hellulögðum gangstéttum og bílastæðum. Innahúss eru vönduð gólfefni og innréttingar. Mikil áhersla hefur verið lögð á einfaldleika, notagildi og einfalda hönnun.
Arkitektahönnun er unnin af Teiknistofu arkitekta, Gylfa Guðjónssyni og félögum, en Mímir fasteignafélag ehf. annast alla aðra hönnun, smíði og frágang íbúðanna innan- og utanhúss ásamt lóðafrágangi. Verkfræðistofan Ferill hafði umsjón og eftirlit með verkinu af hálfu SS. Undirverktakar voru Gröfuþjónusta Þormars sem sá um jarðvinnu, Rafmagnsverkstæði Ragnars um raflagnir og Pípulagnir Helga önnuðust lagnavinnu. Þorsteinn Jónsson sá um hellulögn á bílstæðum.
Allt frá því að SS flutti kjötvinnslu sína á Hvolsvöll árið 1991 hefur sveitarfélagið Rangárþing eystra stutt dyggilega við uppbyggingu starfseminnar á Hvolsvelli, nú síðast með úthlutun lóða undir leiguíbúðirnar, skv. viljayfirlýsingu sem undirrituð var á 110 ára afmæli félagsins þann 28. janúar 2017.
Þensla er á húsnæðismarkaði og gildir það um Hvolsvöll eins og önnur landssvæði. Því er það sérstakt ánægjuefni að sveitarfélagið og fyrirtækið nái saman um að bjóða hagkvæman valkost til starfsmanna með þessum hætti. Á þessum tímamótum vill SS koma á framfæri sérstöku þakklæti til íbúa og samfélags á Hvolsvelli fyrir velvilja og skilning á mikilvægi og þörfum öflugs atvinnulífs.
Það er von fyrirtækisins að íbúðirnar falli vel að þörfum starfsmanna og samfélagsins á Hvolsvelli.
Framkvæmdir við annan áfanga, þ.e. næstu 8 íbúðir er hafnar.
Meðfylgjandi eru myndir af húsunum innan- og utanhúss og frá því þegar Benedikt Benediktsson, framleiðslustjóri SS afhenti þeim Grzegorz og Justyna blómvönd við afhendingu fyrstu íbúðarinnar.