- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Á Kjötsúpuhátíðinni sem haldin var helgina 31. ágúst - 2. september sl. voru að vanda veitt skreytingarverðlaun til þeirra sem þóttu skara fram úr í skreytingum fyrir hátíðina. Skreytingakeppnin setur alltaf skemmtilegan blæ á hátíðina og gaman að sjá metnaðinn og samvinnuna í götunum. Veitt eru verðlaun fyrir best skreytta húsið, frumlegustu skreytinguna og svo er best skreytta gatan einnig verðlaunuð. Óháðir dómarar úr Rangárþingi ytra eru fengnir til að koma og meta og í ár, eins og þau síðustu, beið þeirra mikið og erfitt verk að gera upp á milli.
Verðlaun fyrir best skreytta húsið fengu þau Birgir Óskarsson og Pálína Guðbrandsdóttir en þau búa í Litlagerði 2a. Í verðlaun fengu þau gistingu með morgunverð frá UMI Hótel sem staðsett er undir Eyjafjöllum. Á myndinni er Birgir og sonarsonur hans, Sigurður Kári, með verðlaunin sín.
Frumlegasta skreytingin þótti vera hjá þeim Önnu Kristínu Guðjónsdóttur og Ólafi Rúnarssyni en þau búa í Gilsbakka 29b. Í verðlaun fengu þau fallega lugt með kertum frá Rafverkstæði Ragnars og gjafabréf fyrir bjór og borgara í Smiðjunni brugghús í Vík. Á myndinni tekur Anna Kristín við verðlaununum ásamt dætrum sínum.
Best skreytta gatan 2018 var valin Gilsbakki og voru íbúar þar vel að verðlaununum komin enda með eindæmum dugleg að skreyta götuna sína. Anna Kristín og dætur tóku við verðlaununum fyrir götuna en SS gaf fullan kassa af góðgæti sem að íbúar geta notið saman. Á myndunum hér fyrir neðan má sjá verðlaunahafa ásamt Árnýju Láru Karvelsdóttur, markaðs- og kynningarfulltrúa, sem veitti verðlaunin en dyggur aðstoðamaður hennar var Valur Freyr Stefánsson.