Söngkeppni Hvolsskóla og Tvistsins var haldin þriðjudagskvöldið 8. nóvember í Hvolnum. Keppnin var stórglæsileg og stóðu allir flytjendur sig með sóma.

 

Oddný og Freyja Benónýdætur, ásamt hljómsveit, voru sigurvegarar og fara áfram á USSS sem er Undankeppni Söngvakeppni Samfés á Suðurlandi og fer fram í janúar á næsta ári. Lagið sem þær fluttu var "Hit me with your best shot" sem Pat Benatar gerði frægt um árið og hlaut lagið góðar undirtektir í salnum. 
Í öðru sæti voru systurnar Íris og Elísabet Dudziak með lagið "Little do you know" og Kristjana Laufey var í þriðja sæti með lagið "The story".

Að auki var valið efnilegasti flytjandinn og var það Dórothea Oddsdóttir með lagið "Talað við glugann" og Oddur Ólafsson fékk verðlaun fyrir frumlegasta atriðið á keppninni. 

Nemendur úr Tónlistarskóla Rangæinga spiluðu undir í atriðum keppenda og sú mikla vinna er liggur að baki hljóðfæranámi skilaði sér vel í þéttum og góðum flutningi.

Tónlistarlífið er greinilega í blóma í sveitarfélaginu og við óskum öllum flytjendum til hamingju með kvöldið.