Styrkveiting úr Minningarsjóði um Birgi Einarson apótekara

 

 

Hinn 31. júlí sl. var Arnbjörgu Arnardóttur píanóleikara veittur styrkur til framhaldsnáms í píanóleik að fjárhæð kr. 2.000.000 úr Minningarsjóði um Birgi Einarson apótekara. Styrkveitingin fór fram í upphafi 100. tónleikanna í Selinu á Stokkalæk fyrir fullu húsi áheyrenda, þar sem fram komu þau Ruth Jenkins sópran, Andri Björn Róbertsson bass-barítón og Ástríður Alda Sigurðardóttir píanóleikari.

 

Formaður stjórnar minningarsjóðsins, Inga Ásta Hafstein á Stokkalæk, lýsti tildrögum styrkveitingarinnar en aðrir í stjórn eru píanóleikararnir Halldór Haraldsson, Anna Þorgrímsdóttir, Ólafur Vignir Albertsson, Snorri Sigfús Birgisson og Magnús B. Einarson læknir. Í ræðu formanns kom fram að Arnbjörg Arnardóttir hefði sýnt einstakan námsárangur. Hún lauk nú í vor stúdentsprófi úr eðlisfræðideild Menntaskólans í Reykjavík og jafnframt áttunda stigs prófi með láði frá Tónlistarskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Svönu Víkingsdóttur. Árangur Arnbjargar úr píanónámi ber kennara hennar fagurt vitni en Arnbjörg fékk einkunnina 10 fyrir píanóleik og er það einsdæmi. Við styrkveitinguna lék Arnbjörg prelúdíu í a-moll úr Enskri svítu nr. 2 eftir Bach og 15 ungverska bændadansa eftir Béla Bartok.

 

Minningarsjóður um Birgi Einarson var stofnaður vorið 1995 af þálifandi ekkju hans, frú Önnu Einarson, en Birgir var mikill áhugamaður um klassíka tónlist. Tilgangur sjóðsins er að styrkja píanóleikara til framhaldsnáms í klassískum píanóleik. Styrkurinn til Arnbjargar er 21. styrkurinn sem veittur er úr þessum minningarsjóði en nokkrir hafa fengið styrki oftar en einu sinni og eru styrkþegar sjóðsins nú orðnir 12.