Þessa dagana leggja fagmenn SS á Hvolsvelli lokahönd á framleiðslu súrmatarins fyrir komandi þorra. Að þessu sinni fagnar Sláturfélagið 110 ára afmæli á þorranum, en félagið var stofnað við Þjórsárbrú, þann 28. janúar 1907. Það fer því vel á þeim tímamótum að setja á markað 2017 árgerðina af þjóðlegum og freistandi þorramat eins og hann gerist bestur.

Í gegnum áratugina hafa kjötiðnaðarmeistarar lagt sérstakan metnað í framleiðslu þorramatarins, þar sem gamlar hefðir og aðferðir eru í hávegum hafðar. Líkt og með góð vín sem standast ítrustu gæðakröfur ár eftir ár, er blæbrigðamunur á þorramatnum frá ári til árs. Framleiðsla á súrmat er langt ferli og hefst yfirleitt síðsumars eða snemma hausts. Þá er hráefni valið og fyrstu bitarnir lagðir í súr. Síðan hefst verkunarferli þar sem grannt er fylgst með framvindu mála, sýrustigi, hitastigi, bragði og áferð frá degi til dags. Aðgangur að súrmatskjallaranum er takmarkaður og aðeins fáir útvaldir fá að annast um súrmatinn til að tryggja að verkunin sé eins og best verður á kosið. Það er því spennuþrungin stund þegar líður að áramótum og kjötiðnaðarmeistararnir bjóða upp á smakk og leggja árangurinn í dóm samstarfsmanna. Menn horfa, þefa, smakka, tyggja og smjatta og láta svo skoðanir sínar óspart í ljós.

Þetta árið þykir vel hafa tekist til og telja menn að bragð súrmatarins endurspegli góða veðráttu síðastliðið sumar, sem varð til þess að lömb komu væn af fjalli og hráefnið því óvenjugott. Af sömu ástæðum hafi hafi skyrmysan þetta árið skilað einstöku súrbragði með keim af lyngi og vallhumli.

SS er með sérstakan þorravef þar sem finna má skemmtilegan fróðleik um þorramatinn og brot úr Njálu.


Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri þau, Alicja Poplawska, Halina Poplawska, Pawel Bokiniec, Hermann Bjarki Rúnarsson, verkstjóri og Rebecca Antioquia, sem borið hafa hitann og þungann af verkun og pökkun súrmatarins hjá SS þetta árið.