Dagana 28. – 29. september fer fram ráðstefna ungmennaráða á Suðurlandi í Hvolnum á Hvolsvelli en það er ungmennaráð Árborgar, í samstarfi við SASS, sem stendur að ráðstefnunni. Þar munu koma saman fulltrúar ungmennaráða á Suðurlandi og starfsmenn þeirra frá þeim sveitarfélögum sem halda úti ungmennaráði. Að auki verður áhugasömum ungmennum frá sveitarfélögum sem ekki halda úti slíku ráði boðið að taka þátt. 

Fyrri dagurinn er vinnudagur unga fólksins en ráðstefnan sjálf fer fram þann 29. september. Forseti Íslands setur ráðstefnuna. Þar koma fulltrúar sveitastjórna svæðisins, ásamt embættismönnum og þingmönnum til móts við unga fólkið til að eiga samtal um aðkomu ungs fólks að ákvörðunartökuferlinu í sunnlenskum sveitarfélögum. 


Helstu markmið ráðstefnunnar eru eftirfarandi:
· Að virkja og styðja við ungmennaráð á svæðinu
· Að sveitarstjórnir sjái hin miklu tækifæri sem fylgja öflugu starfi ungmennaráða
· Að hvetja þau sveitarfélög sem hafa ekki nú þegar ungmennaráð hugi að stofnun þess
· Að finna leiðir til að einfalda aðkomu ungs fólks að ákvörðunartökuferlinu og auka áhuga
þeirra á því ferli
· Að huga að gagnabanka/handbók/verkfæri fyrir ungmennaráð á svæðinu þar sem finna má
hagnýtar upplýsingar, ábendingar og góðar leiðir til að koma vinnu sinni á framfæri
· Að stíga fyrstu skrefin að markvissu samtali á milli ungs fólks og sveitarstjórna á öllu
Suðurlandi um mikilvæg málefni sem tengist öllu svæðinu.

Ráðstefnan er styrkt af EUF (Evrópu unga fólksins) og dagskrá hennar má finna HÉR