Njálurefillinn eins árs!


Það er  einkar ánægjulegt þegar einstaklingar taka sig til og láta drauma sína rætast. Í samfélagi okkar skipir hver maður miklu máli og getur haft ótrúlega mikil áhrif. Við gleðjumst sérstaklega þegar þessi áhrif eru jákvæð og hafa jákvæð áhrif í samfélaginu. Nú er eitt ár síðan að  þær Gunnhildur Edda Kristjánsdóttir og Christine  Margareta Bengtson  létu drauma sína og hugmyndir rætast þegar þær hrundu af stokkunum skemmtilegu verkefni  svokölluðum Njálurefli. Fyrsta saumasporið tók ofurkonan  Vilborg Arna Gissurardóttir  2. febrúar 2013 þá nýkomin af Suðurpólnum  og þá enn með lögheimili í sveitarfélaginu okkar.  Á sunnudaginn var haldið uppá eins árs afmæli verkefnisins með sérstakri  hátíðardagskrá. Sagt er  að öll vegferð hefðist með einu spori og í hugum okkar er ferð yfir Suðurpólinn nánast óhugsandi leiðangur og mörgum þykir útsaumur á 90 metra refli löng vegferð og nánast óyfirstíganleg.  Þess má til gamans geta að nú þegar hafa verið saumaðir 15.42 metrar og er það margfalt meiri afköst en búist var í fyrstu.  Ljóst er að með elju og áhuga má koma ýmsum verkefnum áfram sem í upphafi þykja nær  óhugsandi.   Hugmyndin er ævagömul og sótt til  Bayeux- refilisins í Normandí  en  sá refill er þúsund ára gamall og er um 70 metra langur.  Vinnustofa Njálurefilsins er í Sögusetrinu á Hvolsvelli.  Með refilssaumum  hefur skapast nýtt tækifræi í afþreyingu á svæðinu  þar sem gestir og gangandi geta komið og tekið þátt í að sauma myndirnar og fá útrás fyrir listsköpun.  Gestir greiða  fyrir þátttöku og skrá framlagið í gestabók. Þeir sem ekki vilja sauma sjálfir geta orðið þátttakendur með því að kaupa mynd sem starfsmaður saumar fyrir hann og viðkomandi fær nafn sitt í bókina. Hægt er að sjá upplýsingar um verkefnið á heimasíðunni  njalurefill.is. og á Facebook og  hægt að panta saumatíma  á njalurefill@gmail.com  og einnig að skrá sig í hollvinafélag refilsins. 
Njála er ein þekktasta fornsagan sem við Íslendingar eigum og mjög margir erlendir ferðamenn og fræðimenn gera sér ferð til landsins til að skoða sögusvið sögunnar sem er ljóslifandi allt í kringum okkur á Suðurlandi. Kristín Ranga Gunnarsdóttir, listamaður og bókmenntafræðingur teiknar Njálurefilinn. Sveitarstjórn Rangárþings eystra er einn af bakhjörlum þessa verkefnis og þakkar forsvarsmönnum verkefnisins og öllum sem að því hafa komið.  Það er ánægjulegt að sjá hvernig Njálurefillinn hefur hleypt nýju lífi í starfsemi Sögusetursins og hvernig það tengir saman kynslóðirnar. Saumafólk er á öllum aldri og af báðum kynjum. Innilegar hamingjuóskir með  eins árs afmælið og við bjóðum alla hjartanlega velkomna til þess að hjálpa okkur við að skapa þetta listaverk. 


Ísólfur Gylfi Pálmason,
sveitarstjóri.