Þann 7. október fóru nemendur sjöunda bekkjar í hina árlegu ferð að Sólheimajökli. Þessi ferð er fastur liður í umhverfisfræðslu Hvolsskóla. Nemendur mæla hop jökulsins og teknar eru myndir til samanburðar við fyrri ár. Í þetta sinn bar svo við að mælingasvæðið var lokað vegna flóðahættu svo fá þurfti undanþágu og þess vegna var lögreglan og Björgunarsveitarmenn með í för. Eins og í fyrra, kom lónið í veg fyrir að ganga mætti að jöklinum og því var notaður svokallaðu dróni, sem er lítil fjarstýrð þyrla með GPS tæki og myndavél innanborðs. Bátur var með í för og var hann notaður til að mæla dýpt lónsins. Á óvart kom hve lónið er djúpt, en það mældist mest yfir 40 m djúpt skammt undan jökulsporðinum. Jökullinn mældist hafa hopað um tæpa 80 metra fá því í fyrra og hefur hopað um 170 metra frá því byrjað var að mæla árið 2010. Að lokum fóru allir í skemmtisiglingu á lóninu innan um ísjakana og ekki spillti veðrið fyrir, því það var frábærlega gott. Eftir að heim er komið liggur svo fyrir að vinna úr upplýsingunum sem var aflað í ferðinni. Þess má að lokum geta að sjónvarpsmenn frá Landanum voru mættir á staðinn og verður sýnt frá þessum viðburði á næstunni. Kærar þakkir fá Björgunarsveitin og lögreglan fyrir hjálpina.