- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Múlakot var bújörð í aldanna rás og þar var síðan rekið gistiheimili og veitingahús í mörg ár. Í gær var byrjað á skoðunarferð um gamla bæinn og garðinn í kring og Sigríður Hjartar, sagnfræðingur og annar eiganda Múlakots, leiddi fólk um bæinn en þar má finna marga muni er tengjast sögu bæjarins sem gistiheimilis og listamannanýlendu en í Múlakoti hafa dvalið margir af helstu málurum Íslands eins og Ásgrímur Jónsson og Gunnlaugur Scheving.
Eftir skoðunarferðina var haldið í félagsheimilið Goðaland þar sem málþingið sjálft fór fram. Á málþinginu var boðið upp á erindi um t.d. byggingarlistina tengda bænum, málverk í eigu Listasafns Íslands er tengjast Múlakoti og erindi um garðinn við Múlakot.
Að loknu málþinginu var skrifað undir skipulagsskrá fyrir sjálfseignarstofnun er halda mun utan um ýmis málefni gamla bæjarins eins og enduruppbyggingu, viðhald og framtíð staðarins. Sigríður Hjartar og maður hennar, Stefán Guðbergsson, gefa bæinn, innbú og um 0,5 hektara land til sjálfseignarstofnunarinnar og eru þau stofnendur ásamt sveitarfélaginu Rangárþingi eystra og Byggðasafninu í Skógum.
Fleiri myndir má finna hér