Jazz undir fjöllum, árleg jazzhátíð í Skógum undir Eyjafjöllum, verður haldin í fjórtánda sinn laugardaginn 8. júlí.
Aðaltónleikar hátíðarinnar fara fram í félagsheimilinu Fossbúð laugardagskvöldið 8. júlí kl. 21:00. Þar kemur fram latín-jazz hljómsveit kontrabassaleikarans Tómasar R. Einarssonar og flytur hressa og skemmtilega tónlist af metsöluplötunni „Bongó." Sigríður Thorlacius og Bogmil Font syngja, Ómar Guðjónsson á gítar og Kristófer Rodriguez Svönuson leikur á slagverk.
Í Skógakaffi verður boðið upp á tónlist laugardaginn 8. júlí frá kl. 14:00 - 17:00. Þar verður flutt sérstök dagskrá helguð 100 ára afmælum Dizzy Gillespie og Thelonious Monk, en báðir eru í hópi þekktustu og áhrifamestu jazzmanna sögunnar. Sigurður Flosason leikur á saxófón, Sunnar Gunnlaugsdóttir á píanó, Leifur Gunnarsson á kontrabassa og Scott McLemore á trommur. Ókeypis er inn á þessa tónleika og reiknað með að gestir geti komið og farið að vild á meðan tónlistinni stendur.
Fyrri hátíðir í Skógum hafa fengið frábæra aðsókn og góða dóma. Hér er á ferðinni einstakt tækifæri til að njóta góðrar og fjölbreyttrar tónlistar í tengslum við lifandi náttúru Íslands eins og hún gerist fegurst. Aðstandendur hátíðarinnar eru Skógasafn og Sigurður Flosason. Hátíðin nýtur stuðnings Rangárþings eystra, Skógasafns, Hótels Skóga og Hótels Eddu.
Aðgangur er ókeypis í Skógakaffi en aðgangaseyrir er 2.000 kr. í Fossbúð.