Leikfélag Rangæinga frumsýnir Fullkomið brúðkaup í kvöld í Hellubíói. Leikritið er eftir Robin Hawdon en Örn Árnason þýddi. Leikstjóri er, eins og í fyrra, Ármann Guðmundsson.


Verkið greinir frá Bjarna sem vaknar að morgni brúðkaupsdags síns, eftir svaðalegt steggjapartý, í brúðarsvítu Stracta hótels á Hellu, með ókunnuga og nakta stúlku sér við hlið. Þar sem hann getur ekki fyrir sitt litla líf munað hvað gerðist um nóttina verður hann að taka skýringar hennar trúanlegar. Það breytir því ekki að tilvonandi brúður hans er rétt ókomin á hótelið og góðu ráðin því í dýrari kantinum og reyna þau, með aðstoð Trausta, besta vinar og svaramanns Bjarna, og herbergisþernu sem flækist fyrir helbera óheppni inn í málið, að spinna lygavef svo að af brúðkaupinu geti orðið.