- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Vegagerðin hefur sótt um framkvæmdarleyfi fyrir lengingu varnargarðs við ósa Markarfljóts um 250 m. Tilgangur varnargarðsins er að færa ósinn sem samsvarar lengd garðsins til austurs og þar með að draga úr framburði sem safnast saman í Landeyjahöfn.
Á síðasta sveitarstjórnarfundi tók sveitarstjórn undir bókun skipulagsnefndar sem er svo hljóðandi:
„Framkvæmdin var kynnt Skipulagsstofnun vegna hugsanlegs mats á umhverfisáhrifum. Niðurstaða stofnunarinnar er sú að megináhrif af fyrirhuguðum framkvæmdum verði færsla óss Markarfljóts til austurs, en að hvorki sé líklegt að um verði að ræða neikvæð áhrif vegna landbrots upp með farvegi fljótsins eða að ósinn muni færast lengra í austur en ætlað er með tilkomu garðsins. Breyting á leiðigarði við Markarfljót sé því ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að hún samþykki veitingu framkvæmdaleyfis fyrir lengingu varnargarðs við ósa Markarfljóts um 250 m. með fyrirvara um leyfi landeigenda og Fiskistofu. Nefndin vill ítreka að Markarfljót verði stokkað af með varnargörðum allt niður að ósi austan megin fljótsins.“